Af hverju ætti ég að velja borgaralega fermingu?
Fermingin er stór athöfn þar sem einstaklingur staldrar við á tímamótum og fagnar því að ganga í fullorðinna tölu. Hefð er fyrir því á Íslandi að þessi athöfn feli í sér trúarjátningu og staðfestingu á kristinni skírn, en er það þó ekki nauðsynleg forsenda fermingar. Hjá Siðmennt er hægt að sækja fermingarnámskeið og fagna fermingunni með hátíðlegri athöfn sem ekki felur í sér höfnun eða játningu á neinni lífsskoðun né trú. Borgaraleg ferming er opin öllum ungmennum – óháð uppruna, kyni, kynhneigð, trú eða lífsskoðunum. Hvorki ungmennin né foreldrar þeirra þurfa að vera skráð í Siðmennt til að fermast hjá okkur. Aldursviðmið er 13-15 ára.
Hvað er borgaraleg ferming?
Borgaraleg fermingarathöfn er í raun útskrift af fermingarnámskeiðinu sem unglingarnir sækja í aðdraganda athafnarinnar. Fermingarfræðsla Siðmenntar miðar að því að efla unglinga og búa þeim dýrmætt veganesti til framtíðar. Á námskeiðinu er lagt upp með því að styrkja sjálfsmynd, hvetja til víðsýni og styðja við uppbyggilegt hugarfar. Meðal viðfangsefna er gagnrýnin hugsun, sjálfsmynd, siðfræði, mannréttindi og umhverfismál. Ný námskrá verður tekin í gagnið árið 2022, og er hægt að kynna sér hana nánar á sidmennt.is.
Er mikið af vígslum ár hvert?
Heldur betur! Fyrsta fermingarathöfnin fór fram árið 1989, og hefur hópur fermingarbarna sem fermast hjá Siðmennt farið sístækkandi síðan þá. Á seinasta ári var hópurinn 14% af fermingarárgangnum á Íslandi, og stefnir auðvitað í metskráningu í ár. Athafnir eru haldnar um allt land, og eru hópathafnirnar um 10 hvert ár. Sömuleiðis bjóðum við upp á heimafermingar sem er vinsæll kostur, þar sem athafnastjóri á vegum Siðmenntar mætir í fermingarveislu fermingarbarnsins og heldur persónulega athöfn í faðmi fjölskyldu og vina.
Hvar í Vestmannaeyjum eru Borgaralegar fermingar?
Hópathöfnin í Vestmannaeyjum verður 9. apríl kl. 13 í Kiwanissalnum.
Er dýrar að fermast borgaralega eða venjulega?
Borgaraleg fermingarfræðsla kostar frá 32 þúsund krónum, og hópathöfn kostar 18 þúsund krónur. Til samanburðar kostar fermingarfræðslan rúmar 20 þúsund krónur í þjóðkirkjunni, og flestar sóknir fara í fermingarferðalag sem kosta um 10.000 krónur. Þjóðkirkjan nýtur þess auðvitað að vera á fjárlögum en til að koma til móts við kostnað í Borgaralegri fermingu býður Siðmennt foreldrum að skrá sig í félagið til að fá 12 þúsund króna afslátt per foreldri, sem jafngildir u.þ.b. sóknargjöldunum sem Siðmennt fær fyrir skráða meðlimi. Einnig er boðið upp á systkinaafslátt og vaxtalausa greiðsludreifingu.
Eru vissar dagsetningar í boði eða er alltaf hægt að láta ferma sig?
Hópathöfnin í Vestmannaeyjum er 9. apríl, en hægt er að senda póst á ferming@sidmennt.is til að skipuleggja heimafermingar, þar sem dagsetning er frjáls.