Bleika slaufan árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands hefst í dag, fimmtudag. Allur ágóði Bleiku slaufunnar í ár rennur til krabbameinsrannsókna.
Hægt er að kaupa bleiku slaufuna í Eyjum á eftirfarandi stöðum:
Penninn | Bárustíg 2 |
Húsasmiðjan | Græðisbraut 1 |
Apótekarinn | Vesturvegi 5 |
Bleika slaufan í ár er líkt og í fyrra ekki næla heldur hálsmen. Hönnuður slaufunnar er Guðbjörg Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður í Aurum.
„Lögð er áhersla á að krabbameinsrannsóknir séu forsenda framfara. Sá mikli árangur sem sannarlega hefur náðst er ekki síst þeim að þakka. Dánartíðni kvenna af völdum krabbameina hefur lækkað um 35% á síðustu 50 árum og lífslíkur kvenna hafa nær tvöfaldast.
Félagið vill stuðla að auknum framförum í baráttunni gegn krabbameinum með öflugu vísindastarfi, fræðslu og forvörnum, ráðgjöf og stuðningi. Fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra,“ segir í tilkynningu.
„Á hverju ári greinast 800 konur með krabbamein og við missum 300 konur úr sjúkdómunum. Því miður eru þetta allt of margar konur. Lífslíkur kvenna hafa þó tvöfaldast á síðustu 50 árum. Það er mjög stór sigur. Þessi góði árangur hefur fyrst og fremst náðst vegna rannsókna sem knýja þessar framfarir fram. Í ár söfnum við því sérstaklega fyrir krabbameinsrannsóknum,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins í fréttatilkynningu.
Bleiki dagurinn 2020
Á Bleika deginum hvetjum við landsmenn til að bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu.
Taktu föstudaginn 16. október frá!
Föstudagurinn 16. október 2020 er Bleiki dagurinn. Hvernig væri nú að skipuleggja bleikt kaffiboð í vinnunni eða heima fyrir? Einnig er tilvalið að klæðast bleikum fötum í tilefni dagsins.
Njótum dagsins saman og vekjum um leið athygli á árvekniátaki Bleiku slaufunnar og baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.
Við fengum við þessa mynd á bleika deginum í fyrra – Hér má sjá glæsilegt starfsfólk Eyjablikk í vinnufötum dagsins þann 11.10.19: