Grímur Gíslason

Bláköld lygi í bæjarstjórn

Bæjarstjórnarfundur í beinni er ágætis afþreying og það væri fínt fyrir íbúa í Eyjum að gefa sér tíma til að fylgjast með umræðum þar og vera þannig vel upplýst um það sem þar á sér stað. Ég fylgdist með slíkri útsendingu í síðustu viku og ég neita því ekki að ýmislegt kom mér þá talsvert á óvartvart, eins og reyndar oft áður þegar ég hef fylgst með þessum fundum, en annað ekki.

Að vanda tók formaður bæjarráðs ræðuna sína þar sem hann talaði af yfirlæti niður til minnihlutans og skammaði þá fyrir dylgjur og ásakanir í garð bæjarstjóra. Gagnrýnin væri óþörf og ómakleg, eins og reyndar alltaf, og betra væri að öll dýrin í skóginum væru vinir. Kunnuglegt stef og því var það ekki það sem stóð uppúr, enda bara venjubundin uppákoma á þessum fundum.

Samgöngur mikilvægasti málaflokkurinn

Þar sem ég er sérstakur áhugamaður um samgöngur milli lands og Eyja og rekstur Herjólfs, enda tel ég þann málaflokk vera þann lang mikilvægast þegar horft er til framtíðar og traustrar uppbyggingar atvinnu- og mannlífs í Eyjum, fylgdist ég af sérstakri athygli með umræðu um þann þátt.

Bæjarstjórn getur ekki fríað sig ábyrgð

Ég held að vart hafi farið framhjá nokkrum manni það öldurót sem verið hefur í kringum rekstur Herjólfs síðustu vikurnar. Þar virðist manni, séð úr fjarska og af umtali, að ríki einhverskonar stríðsástand milli stjórnar og starfsmanna. Bæjarstjóri, sem heldur á eina hlutabréfinu, reynir að fría sig allri ábyrgð í þessu máli og bæjarstjórn, sem kosin er af íbúum Vestmannaeyjabæjar, sem er eigandi rekstrarfélagsins, reynir að fría sig af ábyrgð á stöðunni sem uppi er.

Klár trúnaðarbrestur virðist kominn upp milli stjórnar og starfsmanna fyrirtækisins, sem er algjörlega ótækt og óásættanlegt. Bæjarstjórn hefur öll vopn í hendi til að höggva á þann hnút sem kominn er. Ef þeir fulltúar sem bæjarstjórn kaus til að stjórna fyrirtækinu ráða ekki við starf sitt og bæjarstjórn nær ekki að tjónka við þá, hefur bæjarstjórn það alltaf í hendi sinni að grípa til þess að boða til hluthafafundar og koma skikki á hlutina. Það hefur jú áður verið gert til að skipta út stjórnarmönnum í fyrirtækinu og meirihlutinn þekkir því þá leið. Ábyrgð í þessum málum er því alfarið bæjarstjórnar og það er aumt að bæjarfulltrúar reyni að fría sig af henni.

Helgar tilgangurinn kannski meðalið?

Það er vont að horfa upp á það að fólk skuli leika sér að fjöreggi byggðarinnar á þann hátt sem verið er að gera varðandi rekstur Herjólfs, en kannski helgar tilgangurinn meðalið. Við skulum jú hafa í huga að núverandi forysta bæjarstjórnar barðist með krafti, já bæði með kjafti og klóm, gegn því að Vestmannaeyjabær tæki yfir rekstur Herjólfs og kannski finnst þeim þetta rétta leiðin til að koma rekstrinum í hendur annarra, án þess að taka ákvörðunina sjálf. Að koma rekstrinum í öngstræti þannig að Vegagerðin leysi þá undan samningum. Er það ef til vill markmiðið?

Vandræðalegt aðgerða-, úrræða- og forystuleysi

Það er eiginlega vandræðalegt að horfa upp á það aðgerða-, úrræða- og forystuleysi sem á sér stað hjá bæjaryfirvöldum í þessu máli en það er líka vont að horfa á upp á kjörna fulltrúa, og æðstu embættismenn bæjarins, fara rangt með staðreyndir og bera blákalda lygi á borð í umræðum í bæjarstjórn. Það er ekki mikil reisn yfir slíkum málflutningi.

Er Vegagerðin orðin yfirboðari bæjarstjórnar?

Það var merkilegt að heyra bæjarstjóra lýsa því yfir að eigendastefnu Herjólfs ohf hafi verið komið á koppinn að kröfu Vegagerðarinnar, því ég vissi ekki að Vegagerðin hefði það vald að leggja línurnar fyrir bæjarstjórn Vestmannaeyja og segja fyrir um ákvarðanir hennar. Þrátt fyrir það koma þessar upplýsingar ekki mjög á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið frá.

Þekkir bæjarstjóri ekki eigendastefnuna sem hún bjó til?

Það sem var þó merkilegra var að heyra bæjarstjóra fara með klár ósannindi í ræðustól bæjarstjórnar. Þar laug bæjarstjóri blákalt að bæjarfulltrúum, já og öllum öðrum sem fylgdust með fundinum, þegar hún svaraði gagnrýni fulltrúa minnihlutans um þessi mál. Hún staðhæfði að í eigendastefnu Herjólfs ohf. væri hvergi getið um að halda ætti formlega fundi með eigendum fyrirtækisins, þ.e. Vestmannaeyjabæ, og nóg væri að hún spjallaði reglulega við framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þetta er algjörlega rangt því í eigendastefnunni, sem bæjarstjóri lét semja fyrir sig og lagði mikla áherslu á að yrði samþykkt, segir: “Stjórnarhættir Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Mikilvægt er að halda stjórn og eigendum vel upplýstum um undirbúning og starfsemi fyrirtækisins, m.a. með mánaðarlegum fundum forráðamanna og eigenda félagsins.“ Enn fremur segir: „Í þessu skyni skulu samskipti milli eigenda og fyrirtækisins vera eftir formlegum leiðum og leitast skal við að beina þeim í farveg aðalfunda og reglubundinna eigendafunda.“

Hrein og klár lygi

Fullyrti bæjarstjóri einnig að áður en eigendastefnan var samþykkt hafi hvorki Vestmannaeyjabær né Vegagerðin hafi fengið neinar upplýsingar um reksturinn frá stjórn Herjólfs ohf. Sú fullyrðing er bara einfaldlega og heiðarlega sagt röng. Hrein og klár lygi.
Ég sat í stjórn Herjólfs ohf og veit að Vegagerðin fékk allar þær upplýsingar sem hún óskaði eftir og henni bar að fá. Þá var bæjarstjóri á öllum tímum upplýstur, af mér undirrituðum sem og þáverandi framkvæmdastjóra, um allar ákvarðanir sem teknar voru í stjórn fyrirtækisins og hver staða þess var. Hún var svo „paranojuð“ yfir því að fá örugglega allar upplýsingar af fundum að síminn hjá mér var yfirleitt byrjaður að hringja um leið og fundum stjórnar lauk og á línunni var bæjarstjóri til að fá upplýsingar um það sem fram fór á fundunum og reka á eftir því að fundargerðum yrði skilað til bæjarins. Bæjarstjóri var því alltaf að fullu upplýstur um það sem rætt og ákveðið var í stjórn fyrirtækisins. Fullyrðingar um annað eru bara bláköld lygi.

Það er aumt þegar bæjarfulltrúar, að ég tali nú ekki um bæjarstjóri, grípa til klárra ósanninda í ræðupúlti bæjarstjórnar til þess eins að reyna að verja vondan málstað.

Grímur Gíslason

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search