Þriðjudagur 27. september 2022

Björguðu rituunga sem sækir í mannfólkið

Ritan er mjög félagslynd en markmiðið er að okkar rita fari út í náttúruna segir dýravinurinn Þóra Gísladóttir

Það er tilfinning þeirra sem eru í tengslum við náttúruna, að fuglalíf Vestmannaeyja sé í miklum blóma þetta sumarið. Fyrstu pysjurnar eru nokkurn veginn á „hefðbundnum“ tíma og eru auk þess í ágætum holdum. En það eru fleiri farfuglar í Vestmannaeyjum sem koma upp ungum. Rituungar hafa verið að gera sig heimankomna hér og þar og á dögunum sögðum við frá rituunga sem sníkir mat í porti Húsasmiðjunnar. Þóra Gísladóttir, dýravinur og myndmenntakennari í Hamarsskóla hefur auk þess fóstrað rituunga í sumar sem fannst einn og yfirgefinn við Skiphella.

„Þetta byrjaði með því að Andri sonur minn hefur undanfarin ár farið og bjargað rituungum sem hafa dottið úr hreiðrunum sínum,“ útskýrir Þóra í samtali við Tígul. „Við fórum alltaf með þá á Sea Life Trust en í ár taka þeir ekki við neinum fuglum nema lundapysjum. Þannig að fyrst sú staða var komin upp þá var ekkert annað í stöðunni en að ala þá upp. Andri fann þrjá unga þetta árið en aðeins þessi eini komst lífs af. Við höfum verið að fá loðnur hjá þeim á Sea Life og svo höfum við keypt rækjur til að hafa með.“

Þóra hefur verið dugleg að leyfa fólki fylgjast með uppeldinu á samfélagsmiðlum og er rituunginn líklega orðinn vinsælasti fuglinn á Facebook. „Hann er búinn að vera hjá okkur í tvo mánuði og er orðinn mjög hændur að okkur. Ég er líka mjög heppin að það taka allir þátt í uppeldinu á heimilinu. Hann situr á öxlinni á okkur, nartar í hárið og lætur mann alveg vita þegar hann vill fá mat. Við erum búin að sleppa honum þrisvar sinnum, bæði inn á Eiði og út á Stórhöfða og hann kemur alltaf aftur til okkar. Svo er hann farinn að ferðast aðeins um bæinn og heimta mat frá vegfarendum. Enn sem komið er kemur hann alltaf heim og er við búrið sitt í bílskúrnum yfir nóttina.“

Ekki bara með Ritu í fóstri

Eins og áður sagði er Þóra mikill dýravinur en á heimilinu má finna einn hund, tvo ketti, kanínu, tvo gullfiska og nú rituunga. En fyrr í sumar voru þeir fleiri, fuglarnir. „Mér áskotnaðist líka fyrr í sumar fjóra Starraunga sem einhver hafði hent í ruslið í Sorpu. Það var auglýst eftir einhverjum sem gæti tekið þá að sér og ég ætlaði bara alls ekki að taka þá. En þegar átti að fara að aflífa þá gat ég ekki annað en tekið þá. Starrar eru mjög skemmtilegir fuglar og það var mjög skemmtilegt að fá að taka þátt í að ala þá upp. Þegar þeir voru orðnir stærri og sumir á heimilinu ekki mjög hrifnir af þeim (lesist: Júlli) þá talaði ég við dýralækni á Álftanesinu sem hafði tekið að sér fleiri Starra og lét hana klára að koma þeim út í lífið.“

Nú er ritan farfugl. Heldurðu að ritan þín haldi suður á bóginn þegar hausta tekur?

„Ég vona að hún fari í sitt náttúrulega umhverfi, það er henni fyrir bestu og var alltaf markmiðið að hún færi út í náttúruna aftur. En ritan er víst mjög félagslynd og vonandi sækir hún í félagsskap annarra rita, vandamálið er bara að þó við séum búin að ná að kenna henni ýmislegt þá hefur hún ekki enn náð tökum á að veiða sér til matar og treystir því alfarið á okkur mannfólkið að færa sér mat. Vonandi lærir hún það með tímanum“ sagði Þóra.

„Já að lokum átti ég að koma því á framfæri að ég tek ekki að mér fleiri dýr,“ sagði Þóra og hló en bætir svo við að það sé auðvitað vonlaust að það sé enginn úrræði fyrir dýr á eyjunni. „Ekki nóg með að það vill enginn taka að sér slasaða eða yfirgefna fugla í þessari fuglaparadís sem við búum hér á, þá er algjör skömm að því að hér sé ekki hægt að finna framtíðarhúsnæði fyrir dýralækna. Bæjaryfirvöld mega gjarnan fara að girða sig í brók í þessum efnum.“

Tígull tekur svo sannalega undir þessi lokaorð Þóru og skorum á Vestmannaeyjabæ að kippa þessu í lið sem fyrst.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is