Bjóðum ekki hættunni heim

Svo virðist sem æ fleiri séu tilbúnir að leggja vinstri flokkum lið, hvaða nafni sem þeir kunna að nefnast, og óháð því að stefnumálin séu í raun hin sömu og reynst hafa svo illa í gegnum tíðina. Það sem við höfum orðið vitni að undanfarna daga í málflutningi vinstri flokkanna er ekki beint hagfellt okkar samfélagi hér í Eyjum. Boðuð er aukin skattheimta, ekki síst á fyrirtækin í sjávarútvegi, en líka á venjulegt fjölskyldufólk. 

Enn er óskýrt af þeirra hálfu hvar í rekstri venjulegra sjávarútvegsfyrirtækja eigi að sækja aukið skattfé, og virðist það haldast í hendur við kunnáttu- og skilningsleysi á rekstrarumhverfi fyrirtækja yfir höfuð. Það er óhætt að segja að erfitt gæti reynst að vinda ofan af slíkum aðgerðum stjórnvalda. Vill fólk virkilega að rekstur útgerða verði í sama umhverfi óvissunnar og var hér fyrir fáeinum áratugum, þar sem hið opinbera þurfti ítrekað að koma fyrirtækjum til hjálpar og ekki síður lánastofnunum? 

Þá hafa þessir flokkar boðað róttækar breytingar á kvótakerfinu án þess þó að útskýra með hvaða hætti á að starfrækja kerfið í framhaldinu. Einungis er boðað að setja kvóta á markað, en engin nánari útlistun fæst á því. Við vitum hinsvegar vel að þeir sjá fyrir sér aukin afskipti ríkisvaldsins og veruleg inngrip í greinina komist þeir til valda. Undir þeim kringumstæðum getur enginn starfað. 

Það er ágætt fyrir okkur að rifja það upp þessi dægrin að þrátt fyrir allt hefur ágætlega tekist upp við hagstjórnina hér á landi undanfarið. Flest fólk ætti að sjá þess merki í sínu daglega lífi. Vextir hafa verið lægri en áður, kaupmáttur aukist verulega og atvinna hefur verið næg. Er ástæða að rugga bátnum undir þeim kringumstæðum? Ég held ekki.

Hér í Eyjum erum við vissulega ekki ánægð með þróun allra mála, sennilega eru heilbrigðismálin þar efst í huga. Þar hefur áherslan því miður verið á miðlægari þjónustu úr Reykjavík á kostnað eðlilegrar þjónustu í heimabyggð. Ráðherra málaflokksins hefur boðað að fyrir sína parta verði haldið áfram á þeirri braut í anda ríkisvæðingarsinna. Slíkt er óþolandi að mínu mati.  

Ég tel hættu stafa af stuðningi við flokka sem gætu orðið þess valdandi að hér taki vinstri stjórn við völdum að loknum kosningum. Hvenær hefur vinstri stjórn reynst okkur Eyjamönnum vel? Ég bið fólk að bjóða ekki slíkri hættu heim. 

Viðar Elíasson

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search