Mánudagur 26. september 2022

Best í heimi að vera í lúðrasveit

Líkt og í öðrum skólum eyjanna er starf Tónlistarskóla Vestmannaeyja komið á fullt og komast færri að en vilja við hann. „Í dag eru skráðir 110 nemendur við skólann og um 25 eru á biðlista,“ sagði Jarl Sigurgeirsson, skólastjóri Tónlistarskólans í spjalli við Tígul í vikunni. „Við erum enn að taka inn nemendur af biðlistanum og gerum ráð fyrir að nemendur verði um 115-120.“ Þá sagði Jarl þessar tölur vera vel í takt við fjölda síðustu ára. Þetta væri þó ekki allur fjöldinn sem nyti þjónustu skólans því kennarar hans sinna einnig tónmenntarkennslu við GRV. „Kennarar skólans sinna einnig tónmenntakennslu í 5 ára deild og 1.-4. bekk grunnskólans auk þess sem Karlakór Vestmannaeyja, Kvennakór Vestmannaeyja og Lúðrasveit Vestmannaeyja starfa öll undir hatti skólans. Þar bætast við rúmlega 400 manns sem njóta þjónustu skólans en eru þó ekki skráðir nemendur,“ sagði Jarl.

Gítar og píanó vinsælust

Jarl segir að kennt sé á flest hefðbundin hljóðfæri við skólann ásamt söng. „Þau hljóðfæri sem við kennum á núna eru trompet, baritonhorn, básúna, túba, blokkflauta, þverflauta, klarinett, saxofónn, píanó, gítar og söngur. Einnig er hægt að læra á fiðlu og selló, en sú kennsla fer ekki í gang fyrr en síðar á önninni.“ Til viðbótar við þessa kennslu eru kenndar tónfræðigreinar við skólann auk þess sem starfrækt er skólalúðrasveit í tveimur deildum ásamt fleiri samspilshópum.

Aðspurður um vinsælustu hljóðfærin sagði Jarl gítar og píanó vera langvinsælustu hljóðfærin og hafa verið. „Það er alltaf talsverður biðlisti á þau hljóðfæri. Trommur koma þar á eftir og söngurinn. Blásturshljóðfærin hafa átt undir högg að sækja, en um leið er þá minni biðlisti ef sótt er um nám í slíkt. Þá fær maður líka tækifæri að vera með lúðrasveitinni, sem er að okkar mati best í heimi,“ sagði hann og hló.

Opið fyrir umsóknir allt árið

„Það er alltaf hægt að skrá sig í nám, allan sólarhringinn allt árið um kring. Skráningin fer fram á netinu og dettur þá umsækjandi inn á biðlistann. Við fáum tilkynningu um umsóknir og getum tekið nemendur strax inn ef laust er á viðkomandi hljóðfæri. Annars höfum við samband þegar þar að kemur. Við höfum hvatt foreldra og verðandi nemendur til að leggja inn umsókn þar sem nokkur bið getur orðið á því að komast inn í nám. Því fyrr sem sótt er um því betra.“ Hægt er að sækja um nám á þessari slóð. https://schoolarchive.net/school/AdmissionForm.aspx?orgId=34&periodId=8

Alltaf á leiðinni

Tónlistarskólinn er í dag til húsa við Vesturveg þar sem áður var til húsa Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum og er vægast sagt komið til ára sinna. Nú stendur hinsvegar til að stækka Hamarsskóla og mun Tónlistarskólinn flytjast þangað í kjölfarið. „Við hlökkum mikið til að flytja í væntanlegan nýjan tónlistarskóla. Frá því að ég hóf störf við skólann árið 2006 höfum við alltaf verið á leiðinni í nýtt húsnæði og því hefur ekki þótt tilefni til að leggjast í framkvæmdir á skólanum okkar.

  Núverandi húsnæði hefur reynst okkur vel og er á ýmsan hátt ágætt. En það er orðið ansi lúið og margt sem betur mætti fara. Enda er núverandi húsnæði alls ekki hannað sem tónlistarskóli í upphafi og margt varðandi hljóðvist og annað sem er ekki eins og best verður á kosið. Þá er aðgengi fyrir hreyfihamlaða hér við skólann ekki neitt.“ 

Jarl sagði það verða mikla bót að fá Tónlistarskólann inn í grunnskólann. „Við erum sannfærð um að það mun efla bæði grunnskólann og tónlistarskólann. Best væri ef framtíðarsýn í skólamálum væri að allur grunnskólinn og tónlistarskólinn yrði á sama stað í nálægð við íþróttamannvirkin. Það er draumur sem þarf ekki endilega að vera svo fjarlægur,“ sagði Jarl og bætti við að lokum. „Við bindum miklar vonir við að vel verði staðið að framkvæmd og byggingu nýs tónlistarskóla og teljum að sú bygging eigi eftir að verða tónlistarlífi og þá lífinu almennt til mikils framdráttar í bæjarfélaginu okkar.“

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is