Benedikt Baldursson skákmeistari Vestmannaeyja 2024

Skákþingi Vestmannaeyja lauk hlaupársdagskvöld með einvígi tveggja efstu manna, þeirra Hallgríms Steinssonar og Benedikts Baldurssonar, sem báðir enduðu með 9 vinninga af 11 mögulegum. Einvígið var hörkuspennandi, tefldar voru þrjár 15 mínútna atskákir og skyldi sá verða sigurvegari sem fleiri vinninga hlyti úr þeirri rimmu. Benedikt vann fyrstu skákina, en Hallgrímur aðra og var nú komið að því að tefla eina úrslitaskák. Sú skák var jöfn frá upphafi til enda og sömdu keppendur jafntefli eftir að einungis voru 2 biskupar og 3 peð eftir á borðinu. Allar þessar skákir voru jafnar frá upphafi og því gaman að fylgjast með átökunum. Næst var háð 3 mínútna bráðabani til að skera úr um hver hlyti titilinn og fór svo að Benedikt sigraði og er því Skákmeistari Vestmannaeyja 2024, en þetta er hans fyrsta Skákþing, enda nýr í félaginu. Hallgrímur hefur hins vegar tvisvar áður orðið meistari, árin 2019 og 2022.

Tígull óskar nýjum meistara innilega til hamingju.  

Á Skákþingi fer árlega fram keppni um titilinn Skákmeistari Vestmannaeyja og eru 98 ár síðan það fór fyrst fram á stofnári Taflfélags Vestmannaeyja árið 1926, en þá hlaut sá sem sigraði sæmdarheitið Skákkonungur Vestmannaeyja. Alls tóku tólf skákmenn þátt í Skákþinginu að þessu sinni og tefldu allir saman eða ellefu skákir á mann. Fyrsta umferð fór fram 28. janúar og mánuði síðar var síðasta umferðin tefld. Keppnin var óvenju jöfn þetta árið og fyrir síðustu umferð áttu fimm manns möguleika á að vera efstir, en jafnir í 3-5 sæti urðu þeir Sæþór Ingi Sæmundarson, Arnar Sigurmundsson og Sigurjón Þorkelsson, allir með 8 vinninga. Arnar varð meistari síðast 1979 og hefur alls fjórum sinnum borið titilinn. Enginn hefur oftar sigrað heldur en Sigurjón, en hann hefur unnið 16 sinnum, fyrst 1986 og síðast í fyrra. Sæþór er hins vegar ungur og upprennandi skákmaður og sýndi á mótinu að hann er til alls líklegur á næstunni.

Um helgina teflir félagið í árlegu Íslandsmóti skákfélaga í Reykjavík og teflir fram þremur sveitum, einni í úrvalsdeild, einni í 3 deild og þeirri þriðju í 4 deildinni. Hver sveit er skipuð 6-8 mönnum, en alls eru um og yfir 30 manns sem tefla fyrir félagið um helgina.

Sjá allt um mótið hér: Skákþing Vestmannaeyja 2024

Staðan eftir lokaumferðina – efstu fimm:

 

Karl Gauti formaður taflfélagsins afhendir Benedikt bikarinn.

 

Úrslitaskákin gerist ekki meira spennandi en þetta.

 

Einbeittir, Benedikt og Hallgrímur.

 

Þátttakendur í Skákþingi Vestmannaeyja 2024. Sæmundur, Sigurjón, Sæþór, Hallgrímur, Benedikt, Ágúst Ómar, Karl Gauti, Guðgeir og Þórarinn Ingi. Á myndina vantar þrjá þátttakendur en það eru þeir Arnar Sigurmundsson, Gísli Eiríksson og Arnar Bogi Andersen.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search