Beðið eftir tvískiptum ruslabíl

Brynjar Ólafsson, framkvæmdarstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar

Síðan árið 2011 hafa Eyjamenn flokkað sorp sitt í þrjá flokka; almennt sorp, endurvinnanlegt og lífrænt. Í ár verður smávægileg breyting þar á þegar flokkunum verður fjölgað í fjóra. Megin breytingin við flokkunina er að aðskilja þarf pappa og plast í sitthvora tunnuna.

Samkvæmt nýju flokkunarkerfi verður fjórum úrgangsflokkum safnað við hvert heimili. Flokkað verður í eftirfarandi flokka: Matarleifar, Pappír og pappi, Plastumbúðir og Blandaður úrgangur.

Almennt er gert ráð fyrir að við hvert heimili verði ein tunna fyrir plastumbúðir, ein fyrir pappír og pappa og tvískipt tunna fyrir almennt sorp og matarleifar.

Ruslatunnurnar verða merktar með samræmdum merkingum sem munu gilda fyrir alla flokkun á Íslandi. Allar tunnurnar fá því nýjar límmiða merkingar.

Ekki þó reiknað með að allar tunnurnar verði endurnýjaðar við þetta. „Nei, við flest heimili þá verður brúna tunnan fjarlægð og tvískipt sett í staðinn. Núverandi almenna tunna verður þá endurvinnslutunna,“ sagði Brynjar Ólafsson, framkvæmdarstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar í samtali við Tígul nú í vikunni. En þessar breytingar eru gerðar til að uppfylla lög, nr. 103 frá árinu 2021.

Lítilsháttar hækkun á sorpgjöldum
Aðspurður hvort íbúar komi til með að þurfa greiða sérstaklega fyrir nýju tunnurnar sagði hann bæinn skyldugan til þess innheimta gjöld fyrir þær samkvæmt lögum. Verða þau innheimt í gegnum sorphirðugjöld en þau, sem og sorpeyðingargjöld vegna sorps frá heimilinum eru innheimt með fasteignagjöldum líkt og gert hefur verið. Fyrir árið 2023 voru gjöldin samanlagt rúmar 69 þús. kr. og fyrir árið 2024 verður þau 71. þús. kr.

„Tunnurnar eru komnar til Eyja en ég bíð eftir að tvískiptur sorpbíll komi til Eyja svo hægt sé að keyra tunnunum út,“ sagði Brynjar þegar hann var spurður hvenær þessar breytingar ganga í gegn.

Málmar og gler eru hinsvegar ekki lengur velkomnir í heimilissorpið og þarf að losa það sérstaklega á grenndarstöðvum eða á móttökustöð upp á hrauni. „Til stendur að koma upp tveimur nýjum grenndarstöðvum. Ein á Tangagötu vestan við Krónuna og önnur í botnlanga milli Eyjahrauns 1 og Eyjahrauns 3. Munu þær verða auglýst betur síðar,“ sagði Brynjar.

Greitt fyrir almennt sorp á móttökustöð
Breytingar eru einnig væntanlegar á móttökustöð sorps og þá sér í lagi á gjaldskrá. „Vestmannaeyjabær hefur til þessa borgað með móttöku á gjaldskyldum úrgangi skv. gjaldskrá. Þessi kostnaður hefur hlaupið á tugum milljóna ár hvert. Þetta hefur verið greitt með útsvari íbúa í Vestmannaeyjum í stað þess að sá sem hendir þurfi að borga fyrir það. Samkvæmt lögum hefur Vestmannaeyjabær ekki heimild til að greiða með þessu lengur og frá og með 1. febrúar verður það því í höndum þeirra sem henda ruslinu að greiða fyrir það samkvæmt gjaldskrá hverju sinni,“ sagði Brynjar og bætti við. „Kostnaður vegna móttökusvæðis hefur ekki verið inn í þeim gjöldum sem innheimt eru með fasteignagjöldum heldur hafa verið greidd sérstaklega af útsvarstekjum.“

Sorpútboð er áætlað í lok janúar og verður gjaldskrá móttökustöðvarinnar væntanlega endurskoðað í kjölfar útboðsins, enda á gjaldskráin eingöngu að endurspegla raunkostnað við móttöku, förgun og flutning sorps.“ Brynjar tók þó skýrt fram að ekki verður rukkað fyrir losun á endurvinnanlegum efnum eins og t.d. pappa, plasti, raftækjum, hjólbörðum og málmi.

Til stóð og stendur enn að halda íbúafund þar sem þessar breytingar verða kynntar. En ákveðið var að fresta honum fram yfir útkeyrslu á nýju tunnum og komin smá reynsla á nýja kerfið. Þá geta íbúar tekið saman reynslu og spurningar sem vakna við innleiðinguna og mætt á fundinn til að fá svör við þeim.

Tiltekt í janúar?
Það er því nokkuð ljóst að það margborgar sig að vanda sig vel við flokkun til þess að sitja upp með sem minnst af „almennu“ sorpi því greiða þarf fyrir förgun á því á móttökustöð.

En það er þó ekki fyrr en eftir 1. febrúar. Ættu því bæjarbúar allir að nýta tækifærið og taka vel til í geymslunni og bílskúrnum og henda sem mestu fyrir þann tíma. Það gæti margborgað sig.

 

Núverandi móttöku- og urðunargjald rekstraraðila á móttökustöð.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search