Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2020


Í áætluninnni er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkoma samstæðunnar að fjárhæð 152,8 m.kr. sem er um 5,3% af skatttekjum. Áætlaðar tekjur á árinu 2020 eru 6.619 m.kr. og hækka um 336 m.kr. frá áætlun 2019.

Vegna óvissu í sjávarútvegi eru tekjur varlega áætlaðar og ekki gert ráð fyrir að áætlaðar skatttekjur ársins 2020 verði hærri en raunverulegar skatttekjur þess árs.

Rekstarútgjöld eru áætluð 6.591,5 m.kr. á árinu 2020.

Sem fyrr eru fræðslu- og uppeldismál stærsti útgjaldaliðurinn í áætluninni, eða rúmlega 40% af heildarútgjöldum aðalsjóðs, en aukin áhersla hefur verið á lögð á að efla þennan málaflokk undanfarið ár og verður áfram.

Rekstrargjöld aðalsjóðs hækka um 347 m.kr. frá áætlun þessa árs. Skýrist sú hækkun aðallega af launa- og verðlagsspá Hagstofu Íslands sem stuðst var við í áætlanagerðinni og auknum framkvæmdum á næsta ári.

Áfram verður gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og hagrætt þar sem við verður komið. Gert er ráð fyrir 1.032 m.kr. til framkvæmda á næsta ári.

Þar af vega þyngst framkvæmdir við byggingu nýrrar slökkvistöðvar, íbúðir fyrir fatlaða, sorporkustöðvar, skipalyftukannts og bæjarskrifstofa. Einnig á að hefja hönnun á nýrri viðbyggingu við Hamarsskóla.

Meðal annarra áhersluverkefna má nefna áframhaldandi heilsueflingu eldri borgara (Janusarverkefnið), gerð hreystivallar, uppbyggingu tölvu- og upplýsingatæknimála hjá GRV, átak í aðgengismálum, gerð gönguleiða og merkinga, uppbyggingu á Vigtartorgi og gerð umhverfisstefnu.

Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 11,5 m.kr. til verkefna að frumkvæði einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka í tengslum við „Viltu hafa áhrif?“. Styrkirnir verða afhentir laugardaginn 7. desember 2019.

Álagningarprósenta útsvars verður óbreytt á næsta ári eða 14,46%. Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis lækkar úr 0,33% í 0,291%. Fasteignaskattur á fyrirtæki lækkar úr 1,65% í 1,55%.

Með þessu er tryggt að gríðarleg hækkun á fasteignamati í Vestmannaeyjum leiði ekki til hækkunar á fasteignaskatti íbúðareigenda og eigenda fyrirtækja.

Ákveðið hefur verið að gjaldskrár fyrir þjónustu Vestmannaeyjabæjar (þ.e. aðalsjóðs) hækki ekki milli ára, þ.m.t. leikskólagjöld, gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar og sundlaugar, matarskostnaður fyrir börn í grunn- og leikskólum, dagvistargjöld og úttektargjöld. Ákvörðun þessi er í anda lífskjarasamnings verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda þar sem m.a. er kveðið á um lægri skatta og lægri opinberar álögur til að auka kaupmátt og kjarabætur lágtekjuhópa.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að frístundastyrkur að upphæð 35.000 kr. verði í boði fyrir hvert barn á aldrinum 2-18 ára.

Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er sterk. Skuldir eru lágar og langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Það eru í raun fá eða nokkur sveitarfélög sem geta státað sér af álíka góðri skuldastöðu. Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að áfram verði gætt aðhalds í rekstri, en jafnframt leitast við að þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið.

Forsíðumynd á Tói Vídó

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search