Tillaga frá bæjarfulltrúum H- og E-lista.
Bæjarstjórn leggur til að hætta við áform um að flytja alla starfsemi bæjarskrifstofanna á 3. hæð Fiskiðjunnar. Þess í stað verði kannað til hlítar grundvöllur fyrir klasa- og sprotastarfsemi í aðstöðunni í samráði við Þekkingarsetur Vestmannaeyja, fyrirtæki og hagsmunaaðila. Bæjarstjórn felur bæjarráði að skipa starfshóp með það hlutverk að kanna grundvöll fyrir slíkri starfsemi.
Breytingartillaga frá bæjarfulltrúum D-lista
Bæjarstjórn leggur til að endurskoða áform um að flytja alla starfsemi bæjarskrifstofanna á 3. hæð Fiskiðjunnar. Þess í stað verði kannað til hlítar grundvöllur fyrir klasa- og sprotastarfsemi í aðstöðunni í samráði við Þekkingarsetur Vestmannaeyja, fyrirtæki og hagsmunaaðila. Bæjarstjórn felur bæjarráði að skipa starfshóp með það hlutverk að kanna grundvöll fyrir slíkri starfsemi.
Forseti bæjarstjórnar úrskurðaði að tillaga H- og E-lista gengi lengra og gengið var fyrst til atkvæða um hana. Var hún samþykkt með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki greitt atkvæði með málinu þar sem ekki liggur fyrir með hvaða hætti eigi að nýta fjárfestingu Vestmannaeyjabæjar þ.e. þriðju hæð Fiskiðjunnar muni starfsemi bæjarskrifstofa Vestmannaeyjabæjar ekki verða staðsettar þar.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa sig hins vegar jákvæða gagnvart frekari nýtingu Fiskiðjunnar til klasastarfsemi og þekkingariðnaðar enda hefur fasteignaþróunarverkefnið Fiskiðjan fyrir löngu sannað gildi sitt sem mikilvægt skref í uppbyggingu atvinnu-, nýsköpunar- og menntamála Vestmannaeyjabæjar.
Á sama tíma liggur heldur ekki fyrir hvaða annað húsnæði gæti hýst bæjarskrifstofur í heild sinni sem væri skynsamlegasta framtíðarskrefið í húsnæðismálum bæjarskrifstofanna til að ná fram rekstrarhagræðingu, stytta boðleiðir milli starfsmanna og samþætta starfsemi bæjarins eftir fremsta megni.
Njáll Ragnarsson gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:
Sú tillaga sem nú hefur verið samþykkt er nánast orðrétt upp úr því minnisblaði sem sjálfstæðismenn lögðu fyrir fundinn. Það er því ákaflega sérstakt að ekki hafi verið samstaða um niðurstöðu málsins.
Trausti Hjaltason gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:
Ég er fagna því að leggja eigi til að stofna eigi starfshóp til að skoða möguleikan á því að skoða til hlýtar þann möguleika á að fá frekari starfsemi tengda atvinnuppbyggingu inn á 3. hæðina í Fiskiðjunni. Enda er það í anda hugmyndarinnar um Fiskiðjuna. Það er miður að fulltrúar H- og E- lista vilji hætta við áform um að setja bæjarskrifstofunar á 3. hæð þegar að það er skynsemi á þessu stigi að halda þeim möguleika áfram opnum. Það er miður að ekki náðist samstaða um orðalag varðandi útilokun á bæjarskrifstofum á 3 hæðina við afgreiðslu málsins.
Tillaga frá bæjarfulltrúum H- og E-lista.
Bæjarstjórn leggur til að færa hluta af starfsemi bæjarskrifstofanna í gamla Ráðhúsið, þ.e. skrifstofu bæjarstjóra, stjórnsýslu- og fjármálasvið bæjarins. Þar verði líka bæjarstjórnarsalur sem jafnframt verður nýttur sem viðhafnarsalur og undir hluta safnmuna bæjarins. Með þessu mun húsið hljóta þann virðingarsess sem því sæmir sbr. hátíðarbókun bæjarstjórnar frá 14. febrúar 2019.
Jafnframt verði unnið að því að flytja starfsemi annarra sviða í grennd við Ráðhúsið. Horft verði til breytinga á Safnahúsi í því samhengi eða annars húsnæðis í nálægð við Ráðhúsið, sem hugsanlega henti slíkri starfsemi betur. Leitað verði álits arkitekts og/eða verkfræðistofu um hvernig best er að koma fyrir þeirri starfsemi á svæðinu.
Við umræðu um tillöguna tóku til máls: Njáll Ragnarsson, Helga Kristín Kolbeins, Trausti Hjaltason, Elís Jónsson, Íris Róbertsdóttir og Hildur Sólveig Sigurðardóttir.
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.
Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna vinnubrögðin við afgreiðslu málsins. Lögð er fram afgerandi tillaga um framtíðarhúsnæði fyrir bæjarskrifstofur, án allrar umræðu meðal allra bæjarfulltrúa. Slík ákvarðanataka ætti að vinnast í sem mestri samvinnu og sátt.
Ráðhúsið hugnast ekki bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem framtíðarhúsnæði skrifstofa bæjarins af eftirfarandi ástæðum;
○ Vísað er í hátíðarsamþykkt bæjarstjórnar þar sem samþykkt var að innan veggja Ráðhússins myndi rúmast m.a. viðhafnarsalur og hluti safna Vestmannaeyjabæjar. Að fara gegn slíkri hátíðarsamþykkt er óskynsamlegt.
○ Það vekur undrun að verið sé að búa til skipulag þar sem æðstu stjórnendur eru teknir í burtu frá annarri starfsemi Vestmannaeyjabæjar.
– Skipulag húsnæðisins er óhentugt fyrir starfsemi bæjarskrifstofa.
○ Aðgengi að og innan húsnæðisins er ekki gott.
○ Torsótt gæti verið að byggja við húsnæðið en nýlega var viðbygging vestan við húsið rifin frá til að tryggja upprunalegt útlit byggingarinnar.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska þess að áhersla verði lögð á að starfsemi bæjarskrifstofa verði öll undir sama þaki með sjónarmið rekstrarhagræðingar að leiðarljósi. Slíkt myndi stytta boðleiðir milli starfsmanna, skapa betra flæði og betri nýtingu skrifstofa og starfsfólks. Í þeim efnum er vísað til allra þeirra möguleika sem eru reifaðir í tveimur minnisblöðum sem eru með sem fundargögn málsins. T.a.m. : Húsnæði Íslandsbanka, stjórnsýsluhúsið, Strandveg 50 eða 3. hæð Fiskiðjunnar. Þessi ákvörðun leysir engan vanda varðandi húsakost annarra sviða.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Trausti Hjaltason, Helga Kristín Kolbeins