Bæjarráð Vestmannaeyja mun funda með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, á fimmtudag vegna stöðunnar í flugsamgöngum milli lands og eyja. Áætlunarflug hætti fyrir mánuði og á mánudag sagði ISAVIA upp öllu starfsfólki á flugvellinum. Við bætast vandamál með samning um siglingar Herjólfs. Vegagerðin hefur farið fram á að hann verði tekinn upp vegna þess að mönnunarþátturinn hafi reynst dýrari en gert hafði verið ráð fyrir.
„Við Eyjamenn höfum auðvitað áhyggjur af því að það séu svona miklar hræringar í kringum samgöngurnar okkar,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri. „Þetta nýjasta útspil ISAVIA er vægast sagt sérstakt. Það hefur ekkert samráð eða samtal átt sér stað heldur var þetta einhliða ákvörðun um að skerða þjónustuna á vellinum.“
Segir hún að fundað hafi verið með vegamálastjóra vegna málsins og að allir sýni því skilning að flugsamgöngur verði að vera í lagi. Tvær samgönguleiðir séu nauðsynlegar fyrir Vestmannaeyjar og sjúkraflug hafi verið þriðja hvern dag.
„Þetta getur kallað á aukin útgjöld hjá ríkinu, úr öðrum vasa, því nú þarf að senda alla þá í sjúkraflug sem áður var hægt að treysta til að fara með áætlunarflugi,“ segir Íris. „Völlurinn hefur mikilvægu öryggishlutverki að gegna og svo auðvitað treystum við því að áætlunarflugið fari aftur í gang.“
Hvað Herjólf varðar hefur starfshópur verið skipaður til að fara yfir samninginn, með fulltrúum Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar. Búist er við að einhver niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum.
Herjólfur siglir nú sex ferðir á dag. „Krafa Eyjamanna er að þjónustan verði ekki skert og Vegagerðin hefur ekki lagt það til,“ segir Íris, en vissulega sé óvissan ekki góð.
Viðtalið birtist við Írisi á vef Fréttablaðsins
Forsíðumyndina á Tói Vídó.