Þriðjudagur 23. apríl 2024
Bjarni

Ástand á mörkuðum hvergi fullkomlega eðlilegt

22.04.2020

Sala frystra sjávarafurða í verslunum í Frakklandi hefur aukist um 108% frá því stjórnvöld settu á útgöngubann 17. mars.

„Sala frystra sjávarafurða í verslunum í Frakklandi hefur aukist um 108% frá því stjórnvöld settu á útgöngubann 17. mars 2020. Neytendur bregðast eðlilega við ástandinu með því að kaupa matvöru sem hægt er að geyma lengi og elda heima þegar veitingastaðir eru lokaðir. Þá sjáum við það gerast í verslunum að fólk er hvatt til að kaupa franskar vörur til „styðja efnahagskerfi Frakklands á krepputímum. Í sumum verslunum er meira að segja hætt að selja innfluttar vörur,“ segir Jeff Rivet, sölustjóri VSV France, markaðsfyrirtækis Vinnslustöðvarinnar í Frakklandi.

Þetta kemur fram í grein á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Þar er fjallað um að Frakkar hafa farið afar illa út úr veirufaraldrinum og eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem misst hafa hvað flesta hlutfallslega.

Jeff Rivet telur nánast útilokað að veitingastöðum og veitingaþjónustufyrirtækjum verði heimilað að hefja rekstur á ný í maí og reyndar eru ýmsir á því að Frakkar þurfi að bíða fram í júlí eftir því að geta farið aftur á kaffihús og veitingastaði.

Vinnslustöðin selur áfram fisk til Frakklands, einkum karfa, en útflutningurinn hefur dregist heilmikið saman og var til dæmis helmingi minni í mars en í janúar 2020.

Á hafnarsvæðinu í Boulogne-sur-Mer liggur helmingur venjulegrar starfsemi niðri. Sjósókn er ekki svipur hjá sjón og fiskverð hrapar. Sömu sögu er að segja í öðrum frönskum höfnum, segir í umfjöllun Vinnslustöðvarinnar.

Hamstrað í matinn í Þýskalandi

Ástand á fiskmarkaði í Þýskalandi er heldur ekki gott en samt skárra en í Frakklandi, segir í greininni. Þar eru líka veitingastaðir lokaðir og veitingaþjónusta hefur sömuleiðis lagst af í bili en í verslunum seljast bæði ferskar og frystar sjávarafurðir og í upphafi samkomubanns í Þýskalandi var áberandi að fólk hamstraði matvöru til að eiga á lager og elda heima, þar á meðal fisk. 

„Sjávarafurðir frá Íslandi eru og verða eftirsóttar, sama á hverju sem gengur. Sjálfbærar veiðar og góður fiskur er sá grunnur sem við byggjum markaðsstarfið á,“ segir Heiko Frisch, sölustjóri Vinnslustöðvarinnar í Þýskalandi. Hann hefur aðsetur í Bremerhaven þar sem er stærsta fiskiskipahöfn Þýskalands. Önnur sjávar- og hafnartengd þjónustustarfsemi er þar blómleg eftir því eða ætti öllu heldur að vera það. Nú um stundir hefur veiran covid 19 hins vegar lamað atvinnulíf og mannlíf í Bremerhaven líkt og annars staðar.

„Ástand á markaðssvæðum okkar er hvergi fullkomlega eðlilegt en talsvert mismunandi. Í Frakklandi og Þýskalandi er skyggni lítið og hlutir breytast jafnvel frá degi til dags. Þegar ríkir samkomubann, hvað þá útgöngubann, segir sig sjálft að svigrúm til athafna í viðskiptum er þröngt. Þá er ekki annað að gera en þreyja þorrann og góuna,“ segir Björn  Matthíasson, framkvæmdastjóri VSV Seafood Iceland, sölufyrirtækis Vinnslustöðvarinnar, í greininni.

„Það er mikilvægt nú sem fyrr að eiga gott og virkt samtal við viðskiptavini á helstu mörkuðum til að skilja þarfir þeirra. Með því móti getum við breytt áherslum í veiðum og vinnslu eftir þörfum. Á þessum veirutímum er líka áríðandi að halda sambandi við alla þá markaði sem við höfum verið að vinna á. Við getum nefnilega lent í því að sumir markaðir hreinlega lokist snögglega og þá er gott að hafa ekki öll egg í sömu körfu. Nokkuð ljóst er að heimurinn mun nú að eignast fjölda nýrra „áhugakokka“ vegna þess að veitingastaðir víða um heim eru lokaðir og mun fleiri en áður spreyta sig í eigin eldhúsum. Margir komast upp á lag með eldamennsku og hafa gaman af. Við skulum gera ráð fyrir því að ýmsir haldi áfram að elda heima að veirufaraldri loknum. Seljendur og dreifendur íslensks sjávarfangs verða að laga sig að því og sjá til þess að fiskurinn okkar eigi líka greiðan aðgang að eldhúsum allra „nýju kokkanna“ sem uppgötvuðu hjá sér áður óþekkta hæfileika í eldamennsku þegar ríkti útgöngu- eða samkomubann í samfélagi þeirra,“ segir Björn.

Frétt frá fiskifréttir.is – Forsíðumynd Bjarni Sigurðsson/ Basi Ljósmyndir

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search