Árið sem leið

Fyrir mér var árið sem leið hvort í senn skemmtilegt og lærdómsríkt. Við fjölskyldan áttum margar góðar stundir saman og var einn hápunktanna ferð fjölskyldunnar ásamt mömmu og pabba, Vallý systur og strákanna hennar til Tene og það var í fyrsta skiptið sem ég fer þangað. Í haust var hinn hápunktur ársins þegar dóttir mín tók þátt í frábærri sýningu Leikfélags Vestmannaeyja um spýtustrákinn Gosa. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með Leikfélaginu og því frábæra starfi sem þar er unnið.
Í sumar dvaldi ég í þrjár vikur á Ródos í Grikklandi og lærði lögfræði, nánar tiltekið hafrétt. Námið var býsna strembið en hitastigið í Grikklandi í júlí, sem fór sjaldan niður fyrir 40 gráðurnar og sló 46 þegar verst lét, var á mörkum þess sem sá sem þetta skrifar réði við. Eftir þriggja vikna einveru í þessu frábæra landi var afar ljúft að koma aftur heim í faðm fjölskyldunnar.
Af bæjarmálunum er það að segja að stór verkefni settu svip sinn á síðasta ár. Við vorum svo rækilega minnt á það hversu viðkvæmir innviðir okkar eru þegar algert óhapp og óheppni varð til þess að eina vatnslögnin til Eyja laskaðist í haust. Hættustigi almannavarna var lýst yfir og fjöldi fólks vann baki brotnu við að tryggja leiðsluna og vatnsflæði til Eyja. Leiðslan heldur og sérfræðingar vilja meina að hún muni gera það fram á sumarið. Þá er mikilvægt að farið verði í viðgerð en á sama tíma verði gengið frá pöntun á nýrri lögn sem hægt verði að leggja á næsta ári og þannig verði því tvær vatnsleiðslur til Eyja til frambúðar.
Þá að samgöngumálunum. Fyrir það fyrsta vil ég segja að það jákvæða sem stendur upp úr er að áætlunarflug hófst aftur í vetur. Yfir vetrartímann, sérstaklega þegar siglingar í Landeyjahöfn verða erfiðar, er gríðarlega mikilvægt að flogið sé til Vestmannaeyja. Það neikvæða er hins vegar hversu erfiðar aðstæður hafa verið í Landeyjahöfn í haust og í vetur.
Ég hef að undanförnu orðið var við umræðu á samfélagsmiðlum þar sem ákveðnir spéfuglar halda því fram að meirihluti bæjarstjórnar hafi tekið ákvörðun um að hætta við ákveðnar umbætur í Landeyjahöfn. Þetta er náttúrulega helber þvættingur og bull – bæjarstjórn hefur aldrei tekið neinar ákvarðanir um framkvæmdir í Landeyjahöfn enda hafa bæjarfulltrúar engar forsendur til þess að meta hvað best sé að gera og hvað ekki. Svo einfalt er það.
Saman þurfum við öll að þrýsta á að rannsóknum verði lokið um það hvernig hægt sé að bæta höfnina þannig að hún þjóni sínu hlutverki allt árið um kring og verði sú höfn sem Eyjamönnum var lofað á sínum tíma. Svo eru það við sem erum sannfærð um möguleikann á jarðgöngum á milli lands og Eyja en að mínu viti er alveg ljóst að það er eina varanlega lausnin í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Mögulega verða kyndilboruð lagnagöng, sem áformað er að gera í lok þessa árs, einungis fyrsta skrefið að vegtengingu við fastalandið.

Njáll Ragnarsson
Formaður bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search