15.12.2020
Það er ekki hægt að haga jólaundirbúningi á sama hátt og undanfarin ár. Hefðir og siðir raskast og mörgum getur reynst erfitt að höndla það.
Um hvað snúast jólin?
Ég hef undirbúið og haldið jól í yfir sextíu ár. Það er að mörgu að hyggja; Þrif, jólaskraut, jólaljós, jólaservéttur, jólagardínur, jólaföt, jólakökur og jólamatur. Jólakort, kveðjur og jólasögur. Jólalög, jólatónleikar, jólafundir og jólahlaðborð, auglýsingar um hvað við þurfum og verðum að kaupa. Alls konar jólasveinar eru í umferð. Jólakonfekt, jólakerti, jóladúkar, aðventukerti og -krans.
Ég hef haft mismikinn tíma til jólaundirbúnings eftir árum. Fyrir síðustu jól var ég stödd í Kenía og þar var lítið jólaáreiti. Engar skreytingar og ekkert jólastress. Ég var jú í fátækrahverfi. Ég spurði nokkrar kenískar konur hvort þær bökuðu fyrir jólin. Þær svöruðu að þær kæmu einu sinni saman fyrir jólin til að baka þar sem væri bakaraofn hver um sig fengi eina köku.
En þar elda flestir yfir eldi og ef fólk á vatn, hveiti, salt og olíu þá er hægt að steikja brauð. Við komum til Íslands rétt fyrir jól 2019 og það var skrýtið að koma þegar jólin eru rétt að hefjast en við vorum nálægt okkar nánustu fjölskyldu. Árið 2020 hefur verið erfitt og fordæmalaust og hvatning til að setja jólaljósin upp fyrr en venjulega til að minnka mátt myrkursins. Það minnir okkur á að hugsa til þess hvað er hið sanna jólaljós.
Hugsum um og hugleiðum orðin í Jóhannesarguðspjalli 1.9; „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“ Hvernig hugleiðum við boðskap jólanna um Jesú sem fæddist í þennan heim fyrir margt löngu. Við getum átt samfélag við hann í dag og hann býður okkur til sín. Undanfarið höfum við haft góðan tíma sem hægt er að nota til að hugsa, hugleiða, lesa og uppbyggjast.
„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Jóh. 3.16 –
Guð elskar okkur og okkar hlutverk er að elska aðra með þeirri elsku sem við höfum hlotið.
Gleðileg jól og megi innihald jólanna verða raunverulegt í lífi okkar allra.
Þóranna M. Sigurbergsdóttir