Ari Eldjárn verður með uppistand næstkomandi laugardag í Höllinni, okkur fannst tilvalið að heyra í kappanum og spyrjan nokkurra spurninga
Aldur og fjölskylda:
Ég er fertugur Vesturbæingur og á yndislega fjölskyldu – konu og tvær dætur sem eru 8 og 3 ára.
Hvar og hvenær ertu fæddur og uppalinn?
Ég er fæddur á Landspítalanum í Reykjavík 5. september 1981 og uppalinn á Ásvallagötunni í 101 Vesturbæ – utan veturinn 1988-1989 þegar við bjuggum í Kantaraborg í Kent í Englandi. Ég bjó svo í áratug í 107 Vesturbænum en bý núna í póstnúmeri 170 í Vestur-Vesturbænum á Seltjarnarnesi. Ekki Nesinu sjálfu heldur landamærasvæðinu.
Menntun:
Ég er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2001 – hvaðan ég útskrifaðist með mikilli sæmd með 3. einkunn. Kláraði svo MA gráðu í kvikmyndahandritsskrifum í London Film School árið 2006. Einnig hafði ég um tíma JAR réttindi sem flugþjónn en þau runnu út árið 2006 og eru að mörgu leyti úreld (það eru ekki lengur VHS tæki í flugvélum Icelandair). Þá hef ég haft B réttindi til að keyra ökutæki frá 5. september 1998 og A réttindi fyrir þungt bifhjól síðan í júní 2018. Þá sat ég einnig þriggja daga námskeið í rafsuðu í Tækniskólanum í Hafnarfirði árið 2018 og bý að þeirri menntun alla ævi!
Var það eitthvað sérstakt sem fékk þig í að fara út í grínið? Hvenær byrjaðir þú í þessu?
Ég hafði tekið þátt í að skrifa Áramótaskaupið árið 2006 og hafði alltaf hugsað mér að koma einhvern veginn að sketsagerð og mögulega gerð grínmynda. En þegar mér bauðst til að prófa uppistand nokkuð óvænt með vinum mínum Bergi Ebba og Dóra DNA árið 2009 sló ég til og hef svo aldrei litið til baka.
Hvernig sérðu Vestmannaeyinga fyrir þér?
Eins og Ísland í hnotskurn: eyjaskeggjar sem hafa mjöööög mikinn áhuga á sjálfum sér! Eiginlega eru Vestmannaeyjar eins og Seltjarnarnes – 4500 manns sem vita allt um alla. Aðalmunurinn er að Nesið er tengt Vesturbænum og fólk þarf ekki að fara í ferju, flugvél eða gúmmíbát til að komast á Landspítalann. En þetta er stórkostlegur staður og fólkið er með mikinn húmor og grínistar á hverju horni. Ég þekkti áður fyrr Vestmannaeyjar eingöngu úr Nýju Lífi og Með allt á hreinu og kom þangað í fyrsta skipti árið 2010. En síðan þá hef ég komið margoft og lít á mig sem mikinn Eyjapeyja. Ég hef meira að segja baðað mig í baðkarinu hans Guðlaugs!
Hvernig ferðu að því að búa til nokkra klukkutíma af gríni, sérðu kannski allt í gríni í kringum þig ?
Já og nei. Suma daga nenni ég ekkert að pæla í þessu – og margt af því sem mér finnst fyndið hentar ekkert endilega sem grín á sviði og er of lúðalegt eða sérhæft. En svo koma tímabil þar sem maður er alltaf að hugsa eitthvað og prófa það á fólki sem maður spjallar við. Þetta eru ægilegar skorpur og ég giska á að ég semji megnið af mínu gríni frá september til desember hvers árs og svo er maður meira bara að endurtaka sig og fínpússa restina af árinu.
Hefur þú upplifað þjóðhátið?
Heldur betur! Skemmti í Brekkunni árið 2011, sá brennuna og datt í partí í hvítu tjöldunum. Fékk líka besta humar sem ég hef smakkað á 900 Grill. Stóðst allar mínar væntingar.
Vinnur þú við eitthvað annað enn að skemmta?
Ekki seinustu 12 árin nei, en ég vann áður á auglýsingastofunni Jónsson og Le’macks þar sem ég var eiginlega ráðinn sem vinnustaðargrínisti. Hef oft velt fyrir mér hvort ég muni enda á að stofna stéttarfélag fyrir íslenska vinnustaðargrínista!