Hildur Sólveig

Áramótapistill

Árið 2023 var annasamt en afar skemmtilegt hvort sem var í sveitarstjórn, öðrum störfum eða í fjölskyldulífinu.

Árið einkenndist fyrst og fremst af stórafmælum, það byrjaði á hálfrar aldar afmæli Heimaeyjargossins strax í janúar, í mars átti ég sjálf fertugsafmæli, í maí varð einkasonurinn táningur og eiginmaðurinn fertugur. Í október fyllti eldri dóttir mín fyrsta tuginn sinn og í nóvember varð mamma sjötug þannig að það var mikið um stóra afmælisfögnuði og dýrðir þetta árið.

Á sviði sveitarstjórnar gerðist ýmislegt sem vert er að nefna, ég sit í stjórn Eyglóar, fyrirtækis Vestmannaeyjabæjar um ljósleiðaravæðingu og komst það verkefni vel á veg á árinu sem er mikilvægt framfaraskref m.a. fyrir lífsgæði íbúa og atvinnustarfsemi. Mikil uppbygging er á fasteignamarkaði og í atvinnustarfsemi og vert að nefna hversu hratt og kröftug uppbygging landeldis á laxi hefur orðið sem nýrrar, spennandi og stórrar stoðar í atvinnulífi Vestmannaeyja.

Verkefnið Kveikjum neistann hefur komið Vestmannaeyjum á kortið hvað menntamál varðar og þá nýsköpun, frumkvöðlahugsun, áræðni og kraft sem Grunnskólinn í Vestmannaeyjum, þ.e. starfsfólk, foreldrar, nemendur og rannsakendur hafa sýnt svo að eftir er tekið.

Það er þó ýmislegt sem betur mætti fara í rekstri sveitarfélagsins og þeirri þjónustu sem hér er veitt hvort sem það er af hálfu sveitarfélagsins eða ríkis. Sveitarfélagið fékk á árinu áminningu frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga vegna hallareksturs A hluta árið 2022, eitthvað sem við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum varað við í fleiri ár. Ekki nægilegt aðhald hefur verið með útgjaldahlið rekstursins sem leiðir því miður þessa stöðu af sér að tekjur stóðu ekki undir rekstri A-hluta árið 2022.

Samgöngumál hafa legið þungt á samfélaginu, skiljanlega. Á sama tíma og frátafir til Landeyjahafnar hafa verið verulegar á síðasta ári hafa flugsamgöngur verið óásættanlegar. Við þær aðstæður sem eru uppi er enn meira aðkallandi að hafa almennilegar flugsamgöngur sem hafa ekki verið við ásættanlegar í lengri tíma. Þar liggur það á okkur bæjarfulltrúum að vera rödd samfélagsins, að koma því vel á framfæri, bæði persónulega við þingmenn og opinberlega að við sættum okkur ekki við þær mylsnur sem okkur er útdeilt hvað flugið varðar og að huga þarf að langtímalausn í okkar samgöngumálum, ekki bara sífellt að slökkva elda frá ári til árs.

Þar sé ég ýmsa möguleika fyrir mér þar til við fáum þá einu lausn sem mun bæta samgöngur til lengri tíma sem eru göng, en það væru m.a. bættar aðstæður í Landeyjahöfn með einum eða öðrum hætti, önnur ferja sem siglir til móts við Herjólf til að anna eftirspurn og auka ferðafrelsi íbúa og gesta og verulega bættar flugsamgöngur með tveimur ferðum á dag en ég bind miklar vonir við að rafvæðing i flugsamgöngum í framtíðinni muni koma til með að stórauka möguleika og hagvæmni í flugsamgöngum til Vestmannaeyja, þar til það verður að veruleika þarf ríkið að styðja við þessa samgönguleið til að hún standi undir sér.

Samstarf í bæjarstjórn hefur almennt gengið vel, enda vilja allir bæjarfulltrúar samfélaginu það besta og vilja hámarka þá þjónustu sem við getum veitt með skynsamlegum og ábyrgum hætti. Vestmannaeyjar eru frábært samfélag og einstaklega samheldið. Það eru einstaklingarnir sem hér búa sem skapa töfrana og kraftinn í sveitarfélaginu, hvort sem það er Þjóðhátíðin, Þrettándinn, Goslokin, íþróttatitlarnir eða hvað sem það er þá byggjast framfarirnar á mannauðnum sem við erum einstaklega rík af.

Ég er full tilhlökkunar fyrir þessu nýja og spennandi ári, við fáum forsetakosningar í sumar sem verða eflaust spennandi. Ég er vongóð að þau stóru verkefni sem við stöndum frammi fyrir í dag á borð við nýja vatnslögn, ný viðbygging við Hamarskóla, viðbygging við Íþróttamiðstöðina, nýtt gervigras, áframhaldandi uppbygging ljósleiðarans og margt fleira komist vel á veg og mun fylgja því eftir. Persónulega þá mun margt spennandi gerast á árinu, það byrjar vel með heimsókn til Þýskalands til að hvetja landsliðið í handbolta til dáða, frumburðurinn verður fermdur í byrjun apríl og hefðbundin viðhaldsverkefni á stóru heimili liggja fyrir svo eitthvað sé nefnt. Ég tem mér það að horfa þakklát yfir síðasta ár um áramót en jafnframt huga að því hvað sé hægt að bæta og gera betur á hvaða vettvangi sem það er 🙂

Ég óska lesendum Tíguls farsæls nýs árs með kærri þökk fyrir liðnar stundir.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search