Andrea og viðar með samsýningu um sjómannadagshelgina

Viðar Breiðfjörð og Andrea Fáfnis Ólafs verða með samsýningu í Akóges um sjómannadagshelgina. Þau bjóða öllum bæjarbúum og gestum velkomna á sölusýningu sem verður formlega opnuð kl. 14 á laugardaginn með léttum veitingum. Sýningin stendur einungis yfir helgina, frá kl. 14-18 á laugardag og sunnudag.

Sýning Andreu og Viðars Breiðfjörðs heitir Öldurót. En Viðar er með seríu á sýningunni sem kallast Af jörðu ertu. Viðar segir að mikið öldurót hafi verið í hans lífi og er nafnið eftir því. Mikið af fólki sem hann þekkti vel og féll frá á stuttum tíma þá vaknaði hugmyndin að nafninu. Hann hefur hugsað mikið um lífið og er hann þakklátur fyrir að búa á stað eins og Vestmannaeyjar eru þar sem honum finnst að fólkið sé eins og fjölskyldan sín. Hann er núna á góðum stað í lífnu og hefur aldrei liðið betur með lífið, gleðina og þakklætið.  Listanafn Viðars er Woody Widebay.

Listrænu hæfileikar Andreu virðast renna í blóðinu eða vera skráðir inn í DNA mengið með einhverjum hætti.  Hún hefur verið að sinna listinni í nokkur ár en hún hélt sína fyrstu einkasýningu í kjölfar fimmtugsafmælisins hennar árið 2022 og seldist næstum allt upp. Síðan þá hefur hún haldið nokkrar sýningar. „Ég er svo heppin að verkin hafa selst vel, bæði til samlanda minna og til útlanda. Svo virðist sem listsköpun mín falli í kramið hjá mörgum og er ég óendanlega þakklát fyrir það því það gerir mér kleift að starfa við hana. 

Listsköpunin kom til mín í kjölfarið á miklu ölduróti í mínu lífi. Þau ýttu við mér, nýja ástin mín og listagyðjan sjálf. Þau hvöttu mig til að leika mér að litum þar til ég tók ákvörðun um að verða við ósk þeirra um að prófa, bara prófa, að mála eina litla mynd. Listagyðjan birtist mér margoft í draumum og virtist vilja fá mig til liðs við sig. Ég skildi ekkert í því og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá gerði ég það kannski svolítið til að friða þau og sýna þeim að ég kynni ekkert að mála. En ég kom okkur öllum á óvart, kannski einna helst sjálfri mér, því nákvæmlega svona vaknaði skaparinn í mér aftur eftir langan og djúpan svefn. Barnæskan var full af teikningum. Ég kalla þetta stundum endurfæðingu mina. Ég fékk að kynnast alveg nýjum heimi listsköpunar núna á miðju æviskeiði og það gerðist á mjög hamingjuríku tímabili sem kom eftir langt og erfitt lífsskeið. Þakklætið sem því fylgir hríslast reglulega um mig alla“. 

Hver er þinn helsti innblástur?

Ég sæki mér þekkingu og innblástur frá ýmsum listamönnum, viðfangsefnum, eigin hugarheimi og umhverfi. Ég er einstaklega heilluð af ýmsum listamönnum frá Bauhaus tímabilinu á fyrri part síðustu aldar. Frumkvæðið og krafturinn sem einkenndi Bauhaus hreyfinguna breytti því hvernig fólk leit á listsköpun. Á þeim tíma urðu frumkvöðlar í bæði geometríunni og abstraktlistinni til. 

Hvaða staður þykir þér fallegastur?

Ég hef ferðast víða um heiminn og séð svo svakalega marga fallega staði, bæði sköpunarflæðið í náttúrunni sjálfri sem og heillandi arkitektúr. Ég finn þó hvar sem ég kem að mér finnst náttúran hvað fallegust þegar ég sé fjölbreytnina í henni, eins og þar sem ég sé fallegt sambland af hafi eða vötnum og himni með fallegum fjöllum og klettabeltum og helst töluverðan gróður líka. 

Uppáhalds staður sem þú hefur komið á og værir til í að fara á aftur?

Ég hef ferðast svo víða að það er virkilega erfitt að gera upp á milli. Ef ég ætti að hugsa út fyrir landið okkar Ísland, þá eru nokkrir staðir sem hafa heillað mig verulega mikið sem hafa það sammerkt að búa yfir þessum eiginleikum sem ég nefndi. Það eru t.d. sum svæði í Ölpunum og við Alpana, Costa Rica, Tæland, Bali. Kóralrifin við Ástralíu eru síðan eins og annar heimur út af fyrir sig. 

Hvernig myndir þú lýsa verkum þínum?

Ég myndi kalla þau tímalausa geómetríu og stundum eru þau abstrakt. Stærsta verkið mitt er t.d. með súmerskum fleygrúnum sem stafa Friðarljós. Það var unnið til styrktar byggingu nýs Kvennaathvarfs og er selt – en ég næ vonandi að hafa með mér nokkur eftirprent til Eyja. Það er einstaklega fallegt verk. Stundum eru verkin mín eins og einhvers konar kosmísk ferðalög eða leikur að hreyfingu, litum og bylgjum. Ég leitast við að láta þau leika við augu áhorfandans þannig að ímyndunaraflið fari á flug og veki spurningar.

Hvenær komstu síðast til Eyja?

Það eru mörg ár síðan – það er orðið tímabært að kíkja til Eyja aftur. Þar er virkilega fallegt landslag og fallegur bær. Ég vona að sýningunni okkar Viðars verði vel tekið og fólkið í bænum kíki á verkin okkar í Akoges salnum um sjómannadagshelgina. Ekki væri nú verra að selja þau líka og skilja eftir smá hluta af sjálfri mér hjá Eyjamönnum.  

Ertu með einhverja tengingu til Eyja?

Ég er Íslendingur, fædd og uppalin á Húsavík og kynntist sjómennskunni ung að aldri. Mín fyrsta minning í lífinu er úti á sjó með föður mínum. Ég hef ekki beina tengingu við mikið af fólki í Eyjum, þótt ég þekki til nokkurra þar. Ætli tengingin sem ég finn sé ekki hvað síst vegna þessa. Ég fór til Eyja í skólaferðalag ung að aldri og heillaðist af náttúrufegurðinni. En tenging okkar Viðars kemur í gegnum rætur okkar til Húsavíkur. 

Hver er þín helstu áhugamál fyrir utan listina?

Ég er gjörn á að spá og spekúlera töluvert í hinn stóra sannleika, samhengi hlutanna í alheiminum öllum og hvernig mannskepnan spilar þar inn í. Ég nýt þess að ferðast um landið og um heiminn og mína eigin margvíslegu hugarheima og upplifa tengingu við alheimsorkuna. Eins nýt ég þess að hlusta á tónlist og hef leikið mér að því að semja texta við lög mannsins míns. Annars finnst mér bara allra best og yndislegast að upplifa ást og kærleika, að vera í flæði á þeirri bylgjulengd og fá að njóta þess að sjá börnin mín vaxa úr grasi og verða að fallegum, skapandi og hæfileikaríkum mannverum.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search