18.03.2020
„Ferskfiskmarkaðurinn er farinn,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um stöðuna sem upp er komin hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, vegna COVID-19 faraldursins. Hún segir að nánast enginn ferskur fiskur sé fluttur út þessa dagana, eftir að fjölmörgum veitingastöðum, hótelum og fiskborðum í verslunum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum var lokað.
Heiðrún Lind segir að hún hafi ekki heyrt um nein vandræði með flutningsleiðir, heldur hafi markaðurinn einfaldlega þurrkast út á örskömmum tíma. Hlutirnir hafi gerst mjög hratt og fiskkaupendur séu jafnvel hættir að svara í símann.
„Það er enginn til að kaupa ferskan fisk,“ segir Heiðrún Lind, en ferskur fiskur var fluttur út fyrir tæplega 80 milljarða í fyrra.
Enginn veit
Heiðrún Lind segir að fiskframleiðendur séu að reyna að laga sig að aðstæðum, meðal annars með því að frysta fiskinn. Það sé bót í máli að sala á frystum fiski sé ágæt, og að jafnvel hafi orðið aukning á sölu til Þýskalands og Bretlands, mögulega vegna þess að þar sé fólk að hamstra mat.
Kemur til greina að fyrirtæki minnki hreinlega fiskveiðar?
„Ég held að menn reyni allt, byrji á að frysta, svo sjá menn hvernig þetta þróast. Ef það verður offramboð þá kýlist verðið niður. Þannig að einhverjir eru farnir að huga að minnkandi sjósókn. En það veit auðvitað enginn hversu lengi þetta varir,“ segir Heiðrún Lind.
Fréttin er frá ruv.is