29.08.2020
Heimir Hallgrímsson og lið hans í Al Arabi eru komnir í úrslitaleik Ooredoo-bikarsins í Katar eftir 2-1 sigur á Al Rayyan í undanúrslitum í dag.
Deildin í Katar kláraðist á dögunum og hafnaði Al Arabi í sjöunda sæti deildarinnar.
Liðið hefur þó aldeilis tekist að bæta það upp með góðum árangri í bikarnum en liðið er nú komið í úrslitaleikinn eftir 2-1 sigur á Al Rayyan.
Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Al Arabi en fór af velli á 62. mínútu.
Al Arabi mætir Al Ahli eða Al Sadd í úrslitum bikarsins en spænska goðsögnin Xavi þjálfar Al Sadd.
Ooredoo-bikarinn er bikar sem fer fram meðan hlé er á deildinni eða þegar leikmenn eru kallaðir í landsliðsverkefni. Bikarinn er gerður fyrir úrvalsdeildarfélög til að þróa efniviðinn í liðinu en þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins.
Forsíðumynd er skjáskot af instagram Al Arabi club. fotbolti.net greindi frá þessu fyrst.