Þessa stundina standa viðræður milli Félags talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um rammasamninga um þjónustu talmeinafræðinga
Í nóvember 2017 setti SÍ inn ákvæði varðandi skilyrði fyrir tveggja ára starfsreynslu fullgilds talmeinafræðings til að komast á samning hjá SÍ. Uppgefin ástæða af hálfu SÍ fyrir þessari tveggja ára reglu er að auka gæðakröfur til þjónustunnar. Með þessu myndast langir biðlistar og getur þetta því haft slæm áhrif á þau börn sem þurfa að bíða í 17-36 mánuði eftir að komast að hjá talmeinafræðingi. Tígull heyrði í Tinnu Tómasdóttur eina talmeinafræðingnum í Eyjum og Lovísu Jóhannsdóttur Eyjamær sem útskrifast sem talmeinafræðingur í sumar.
Verða að starfa við fagið í tvö ár til að komast á samning hjá SÍ
Framkvæmd þessa ákvæðis hefur hins vegar verið á þann veg að nýútskrifuðum talmeinafræðingi, sem hefur starfsleyfi frá Landlækni er meinað að vinna sem sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur, en það sem verra er að honum er einnig meinað að vinna hjá öðrum reyndum sjálfstætt starfandi talmeinafræðingi á stofu.
Síðastliðinn þrjú ár hafa einungis átta nýútskrifaðir talmeinafræðingar farið að vinna eftir samningi við SÍ
Sérstaklega hefur nýliðun talmeinafræðinga á landsbyggðinni verið takmörkuð undanfarin ár og með þessari framkvæmd er verið að gera nýútskrifuðum talmeinafræðingum, sem t.d. hafa rætur eða tengingu út á land og vilja halda aftur heim til að vinna í sínu fagi, erfiðara fyrir að gera slíkt.
Því er það ljóst að framkvæmd SÍ á þessari tveggja ára starfsreynslu vinnur beinlínis gegn þeim markmiðum sem það á að tryggja, þ.e. auka gæði og fagmennsku til þjónustuþega. Gæði og fagmennska verða auðvitað best tryggð á þann hátt að talmeinafræðingar með reynslu miðli sinni þekkingu og reynslu til nýliða í faginu.
Með þessu ákvæði er verið að skerða þjónustu við mjög viðkvæman hóp
Um leið og þetta ákvæði var sett inn í rammasamningana árið 2017 kom það skýrt fram af hálfu Félags talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) að þessu ákvæði hafi verið mótmælt af félaginu vegna fáliðunar stéttarinnar en ekki var hlustað á þessi sjónarmið talmeinafræðinga.
Það er sorgleg staðreynd að með þessu ákvæði er verið að skerða þjónustu við mjög svo viðkvæman hóp en skjólstæðingar sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga eru að mestu leyti börn og unglingar með málþroskaraskanir, framburðarfrávik, þroskaskerðingu, stam ofl. en einnig hafa þeir þjónustað einstaklinga með sjúkdóma eins og Parkinsons, eftir heilablóðfall eða heilaskaða, kyngingatregðu, raddvandamál og svo mætti áfram telja.
Biðtími hjá talmeinafræðing getur verið allt að 3 ár í dag
Sjálfstætt starfandi talmeina-fræðingar á Íslandi eru 40-50 talsins á landsvísu. Biðtími eftir talþjálfun barna á stofu er að meðaltali 17 mánuðir en getur farið lengst í 36 mánuði, skv. rannsókn sem nýútskrifaður talmeinafræðingur skrifaði sl. vor.
Tinna Tómasdóttir eini talmeina-fræðingurinn í Eyjum
Frá því í byrjun ársins 2013 hefur Tinna Tómasdóttir starfað sem eini talmeinafræðingurinn í Vestmannaeyjum og opnaði hún stofuna sína, Talmál slf. í byrjun ársins 2014 sem sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur á rammasamningi við SÍ. Fram að þeim tíma voru 2-3 talmeinafræðingar, sem komu til Eyja 1-2x á ári og sinntu greiningu og ráðgjöf en engri þjálfun.
Ein nær hún ekki að sinna 4300 manna samfélagi
Að sögn Tinnu er biðlisti eftir talþjálfun í Vestmannaeyjum nú að minnsta kosti 12-14 mánuðir og 3-4 mánaða bið í greiningu og/eða ráðgjöf. Það hefur tekið langan tíma að vinna upp áralangt þjálfunarleysi margra skjólstæðinga, sem fengu litla sem enga þjónustu áður.
Einn starfandi talmeinafræðingur í rúmlega 4300 manna sveitafélagi nær ekki að anna eftirspurn því þörfin er mikil og biðin er löng, bæði hjá börnum og fullorðnum einstaklingum.
Lovísa Jóhannsdóttir útskrifast í sumar sem talmeinafræðingur en fær ekki leyfi til að starfa á stofu vegna ákvæðis SÍ næstu tvö árin
Í júlí 2020 flutti talmeinafræði-kandídat, Lovísa Jóhannsdóttir aftur heim en hún er fædd og uppalin hér. Lovísa er að ljúka meistaraprófsritgerð, en vegna þessa tveggja ára starfsreynsluákvæðis SÍ fær hún ekki leyfi til að grynnka á álagi núverandi talmeinafræðings og styttingu á biðlistum með því að ráða sig til starfa á stofunni. Hún hefur því ekki möguleika á að starfa sjálfstætt við hlið og undir leiðsögn starfandi talmeinafræðings með reynslu.
Þetta ákvæði SÍ hefur slæm áhrif hér í Vestmannaeyjum
Þau áhrif sem þetta ákvæði hefur á okkur sem erum hér í Vestmanneyjum eru ekki góð og sér ekki fyrir að hægt sé að auka þjónustuna með því að stytta biðlista og hafa betra og meira flæði í þjónustunni. Þetta bitnar því allra mest á þeim viðkvæma hópi sem talmeinafræðingar vinna með því svona langur biðtími er krítískur á fyrstu æviskeiðum barnsins.
Til lengri tíma litið er það klárlega hagur allra að hægt sé að anna eftirspurn og afgreiða hvert mál á styttri og markvissari tíma en nú er. Tveggja ára ákvæði SÍ er því algerlega á skjön við þá þörf sem er á þjónustu á landinu öllu. Þessi langa bið eftir þjónustu talmeinafræðings er einfaldlega ekki boðleg og þessu þarf að breyta.
Staðan í dag: greinist 3 ára fær aðstoð 4-6 ára
Það má gera ráð fyrir að 1 af hverjum 14 börnum eigi við málþroskaröskun (DLD) að stríða. Barn sem greinist við 3ja ára aldur með málþroskaröskun þarf því að bíða þar til það verður 4-6 ára eftir þjónustunni og gefur það auga leið að sú bið er afar slæm og getur haft mjög slæm áhrif fyrir þroska og getu barnsins síðar meir.