Á goslokahátíðinni í ár verður boðið upp á airbrush tattoo en það er hún Anna Guðrún Jóhannesdóttir sem ætlar að bjóða upp á það. Hún kemur frá Akureyri. “Ég er frekar flippuð og til í flest. Klikkaða staðreyndin er samt sú að ég hef bara einu sinni komið til Eyja! Í minningunni er þetta samt uppáhalds innanlandsferðin mín ever og ég get ekki beðið eftir að koma aftur til ykkar,” segir Anna Guðrún.
Hvað ætlar þú að bjóða uppá á goslokunum?
Ég ætla að vera með Airbrush tattoo á goslokahátíðinni. Það er gert með því að sprauta málningu á valinn líkamspart með lofti og er alveg sársaukalaust. Oftast velur fólk að láta tatto á handleggi, bak eða fótleggi en stundum kemur fyrir að fólk velji aðra staði sem er í sjálfu sér ekkert mál en þarf aðeins að ræðast 😉 Allavegana er vandalaust fyrir alla að fá sér tattoo og litirnir sem ég er með eru ofnæmisprófaðir og henta fyrir allar húðgerðir.
Hvað ertu búin að vera lengi í þessu?
Ég er búin að vera með Airbrush tattoo í nokkuð mörg ár og finnst það hrikalega skemmtilegt. Maður hittir fullt af stórskemmtilegu fólki sem gerir þetta starf frábært. Markmiðið hjá öllum sem koma í tattoo er að hafa gaman saman og lifa lífinu lifandi. Það er ekki hægt annað en vera glaður með tattoo og svo er það bara ógó töff líka. Þetta er líka tilvalið tækifæri fyrir þá sem eru að hugsa um að fá sér varanlegt tattoo því þá sérðu mögulega útkomu. Það eru mjög margir sem gera það.
Er þetta vinsælt? Hvaða aldurstímabil hentar þetta?
Airbrush tattoo gerir lífið svo miklu skemmtilegra í alla staði. Það er bara ekki hægt að vera á hátíðum án þess að vera með tattoo frá toppi til táar. Þetta er mjög vinsælt og oft eru vinir eða vinkonur sem fá sér eins tattoo sem gefa tóninn inn í daginn. Ég hvet fólk á öllum aldri til að fá sér tattoo. Það er enginn of ungur né gamall til að hafa gaman. Elsti maðurinn sem ég hef tattooað var á tíræðisaldri og ég hef aldrei séð neinn jafn glaðan. Gamall draumur hans um að fá tattoo rættist á staðnum og gaman að segja frá því að hann fékk sér stuttu síðar varanlegt tattoo. Hann sendi mér síðan mynd af varanlega tattooinu og það var frekar mikið flott. Þetta kallar maður að lifa lífinu lifandi og láta draumana sína rætast. Á Goslokahátíðinni get ég kannski látið nýja og gamla drauma rætast, hver veit.
Hvað endist þetta lengi á líkamanum?
Það er mjög misjafnt hvað svona tattoo endist lengi og fer alveg eftir húðgerð en yfirleitt endist það í 7 daga. Það þarf bara að passa að nudda ekki með handklæði eftir bað eða sund yfir tattooið til að það haldist. Síðan er ekki gott ef eitthvað nuddast allan daginn í tattooinu eins og armband eða úr því þá máist það fyrr út eins og gefur að skilja.
Hvað kostar Tattooið?
Ég er með þrjú tattoo verð. Þúsund króna tattoo er lítið tattoo eins og t.d. á handlegg, handarbak eða ökkla. 1500 króna tattoo er oft sett á upphandlegg, læri, kálfa eða bak. 2000 króna tattoo eru orðin mjög stór og komast oft ekki nema á bak, læri eða bringu. Það er náttúrulega ótrúlega flott að vera með flott ljón yfir bakið eða bringuna.
Það er hægt að velja úr einhverjum hundruði mynda og þar á meðal ÍBV merkið ykkar.
Hvar og hvenær verður þetta í boði?
Ég verð með þetta á Stakkó, föstudaginn frá kl. 15:30 og laugardag 13:30 – 17:30.
Hlakka til að sjá ykkur öll í Tattoo Partý á Goslokahátðinni þar sem hjartað slær!