Tígull heyrði í Ólu Heiðu sem hefur verið með verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum – Leið að farsælum efri árum og fékk að heyra hvernig verkefnið hefur gengið.
Nú eru komin 2 ár síðan að verkefnið byrjaði, finnur þú enn fyrir jafn miklum áhuga á verkefninu frá þátttakendum?
Áhugi þátttakenda í þessu tveggja ára verkefni hefur allan tímann verið mjög mikill og er enn. Fólk vill hafa áframhaldandi utanumhald við þjálfunina, fá fræðslu og viðtöl við fagfólk, líkamsmælingar, þar sem styrkur, liðleiki og þol er mælt og einnig samvinnu við HSU þar sem teknar eru blóðprufur af hverjum þátttakenda einu sinni á ári.
Hafa verið einhverjar breytingar á skipulaginu eða einhverju varðandi Janusverkefnið? Verkefnið er alltaf í þróun og hefur ástandið í Covid orðið til þess að við þurftum á tímabili að vera með fjarþjálfun, t.d. sendum við þeim videó með ýmsum æfingum, sendum þeim fræðslupistla og videó með fræðsluerindum. Hringdum a.m.k. tvisvar í hvern þátttakanda á covid-tímabilinu, vildum heyra hvernig þeim liði og hvöttum þau áfram að hreyfa sig amk 30 mín á dag. Þegar við máttum fara hittast aftur en ekki fara í þreksalinn, þá settum við upp styrkjandi tíma með teygjum í Týsheimilinu, buðum upp á jóganámskeið og fórum í sameiginlegar göngur um eyjuna. Við munum nýta okkur þessa reynslu í framhaldinu.
Hvað eru margir þátttakendur?
Þátttakendur hafa verið um áttatíu, ekki mikið um að fólk hafi hætt. Nokkrir hafa þurft að draga sig út eða taka hlé t.d. vegna veikinda og flutninga frá Eyjum.
Hefur verið einhver fjölgun milli ára?
Síðasta haust bættum við 9 þátttakendum.
Munið þið bæta við fleirum núna í haust?
Það eru nokkrir á biðlista og við ætlum að reyna að bæta 10 – 12 manna hópi við. Núna erum við að skoða hversu margir ætla að halda áfram þegar tveggja ára verkefninu er formlega lokið.
Þegar blaðamaður Tíguls kíkti við í dag þá voru þátttakendur í mælingum, getur þú aðeins útskýrt það nánar fyrir okkur?
Við upphafi verkefnis fara fram mælingar og síðan reglulega á 6 mánaða fresti í tvö ár. Með því gefst kostur á að fylgjast með þátttakendum, meta stöðu þeirra og framgang.
Helstu mælingar eru:
– Blóðþrýstingsmæling og mæling á hvíldarpúlsi
– Ummálsmælingar
– Mæling á líkamssamsetningu eins og fitumassa, vöðvamassa og fitufríum massa.
– Hreyfifærnimæling, jafnvægispróf, styrktarpróf og göngupróf.
– Liðleikamæling auk hreyfijafnvægismælingar.
– Þolmæling með 6 mínútna gönguprófi.
Hvernig nýtist þetta þátttakendum?
Þátttakendur geta fylgst með stöðu sinni og framförum. Ávinningurinn er heilsufarslegur, bæði hvað varðar heilsutengd lífsgæði en ekki síður almenna afkastagetu og líðan.