Aglow hefur starfað í þrjátíu ár Vestmannaeyjum og var fyrsti fundurinn þann 2. september 1990. Það stóð til að hafa veglegan afmælisfund þann 2. september 2020. Við vorum bjartsýnar um að hægt væri að hittast eðlilega og skipulögðum því afmælissamveru og margir sýndu áhuga á að koma. Því miður verðum við að fresta veisluhöldum og verða þau auglýst síðar. Við áttum góða stund í maí þar sem við hittumst og sungum, báðum saman og spjölluðum. Gott bil var á milli okkar og slepptum við veitingum. Við vorum búnar að ákveða að hafa bænagöngu en nú stefnum við að því að hittast uppi við Framhaldsskóla kl. 19.30 og biðja fyrir og yfir bænum okkar miðvikudagskvöldið 2. september. Þar getum við staðið með góðu millibili og gengið niður í Safnaðarheimili þar sem við verðum með samveru kl.20.00. Það hafa verið fundir mánaðarlega og bænahópur er starfandi sem hittist vikulega. Aglow hefur staðið fyrir ráðstefnum og fræðsludögum hér á Íslandi. Einning hafa Aglowkonur farið á ráðstefnur í Evrópu og Ameríku.
Aglow International er þverkirkjuleg hreyfing kristinna kvenna sem starfar í yfir 170 löndum í sex heimsálfum. Aglow hreyfingin hefur alþjóðlega hugsjón enda snertir hún líf milljóna manna og kvenna af ólíku þjóðerni í margskonar menningarumhverfi. Aglow vinnur að sýn sinni með markvissum hætti í gegnum bæn og trúboð, sem eru tveir grundvallarstólpar hreyfingarinnar. Aglowkonur hafa víða áhrif, t.d. í fátækrahverfum, á vinnustöðum, í dreifbýli, í fangelsum, í stríðshrjáðum löndum og í flóttamannabúðum. Einnig hefur Aglow barist gegn mansali. Það er blessun fyrir bæjarfélagið að hafa haft starfandi hóp kvenna sem kemur reglulega saman í einingu og biður blessunar yfir land og þjóð. Við sendum blessunaróskir og vonumst til að halda afmælishátíðina síðar, kemur fram í tilkynningu frá Aglow.
Sönghópur á Aglow fundi. Myndir frá 25 ára afmæli Aglow árið 2015.
Hér er ein mynd sem var tekin í Nakuru, Kenía, í nóvember 2019. Þóranna og Aglowkonan Dorkas.
En Þóranna fór á alþjóðarástefnu Aglow í Houston í Texas í september 2001 og kynntist þar hóp af konum frá Kenía.