05.08.2020
Aflahæsta skipið á makrílvertíð þessa árs er Huginn VE-55, sem hefur komið með 4.383 tonn að landi, eða tæplega 10 prósent af öllu lönduðu magni á þessu ári. Venus NS-150 fylgir þar í kjölfarið með 3.725 tonn, Víkingur AK-100 hefur landað 3.412 tonnum og Börkur NK-122 hefur sótt 3.347 tonn af makríl.
Ríflega 45 þúsund tonnum af makríl hafði verið landað á mánudag, samkvæmt gögnum frá Fiskistofu. Um er að ræða sambærilegt magn og á sama tíma í fyrra. Breytingin er hins vegar sú að margir hófu veiðar tveimur til þremur vikum fyrr í ár.
Leyfilegt magn sem veiða má í ár er 166 þúsund tonn. Þar af er aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs 138 þúsund tonn, en afgangurinn óveiddur kvóti frá síðasta ári og aukaaflaheimildir, sem sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði til smærri skipa og báta.