Af óveiddri loðnu, ónotuðum loðnustígvélum og Magnúsi & Eyjólfi

Á vef Vinnslustöðvarinnar er þessa skemmtilegu frásögn að finna:

„Eyjólfur félagi minn Guðjónsson harðbannaði mér að fara í loðnustígvélin mín í ár því ella fyndist ekki loðna. Það hvarflaði ekki annað að mér en hlýða og viti menn; loðna fannst og við erum fullir bjartsýni um að miklu meira komi í leitirnar svo við fáum fyrirtaks vertíð.

Stígvélunum hendi ég ekki en tók þau úr umferð og setti þau til hliðar,“ segir Magnús Jónasson, um samskipti þeirra félaga, skipstjóranna á Ísleifi VE.

Maggi á þessi líka fínu gúmmístígvél sem hann notaði á loðnuvertíðinni 2018. Hann gekk í sömu stígvélum 2019 og 2020 en þá veiddist engin loðna. Eyjólfi skipstjóra datt í hug að loðnubresturinn tengdist stígvélunum og lagði bann við að Maggi færi í þau í ár. Þá dró heldur betur til stórtíðinda á miðunum, þökk sé ónotuðum loðnustígvélum.

Vinnslustöðin hefur fengið úthlutað 2.000 tonnum af alls liðlega 60.000 tonnum af loðnu sem sjávarútvegsráðuneytið hefur heimilað að veiða. Loðnuleit er fram haldið og Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs VSV, væntir þess að meira finnist og auknar veiðiheimildir verði gefnar út í samræmi við það:

„Auðvitað sætir tíðindum að veiðanleg loðna skuli loksins hafa fundist og að við höfum fengið úthlutað veiðiheimildum í fyrsta sinn frá 2018. Við leyfum okkur að brosa út í annað munnvikið og japanskir loðnukaupendur, viðskiptavinir okkar, glöddust mikið við tíðindin frá Íslandi.“

Maggi á Ísleifi VE er sannfærður um að framundan sé loðnuvertíð sem standi undir nafni en hefur sitthvað að segja um gagnkvæma samninga Íslendinga við grannþjóðir vegna loðnuveiða:

„Það sýður á okkur loðnusjómönnum vegna þeirrar stöðu að Norðmenn megi veiða loðnu upp í fjörugrjót fyrir norðan land og Færeyingar bæði fyrir norðan og austan. Norsk og færeysk skip fá sem sagt að veiða í tólf mílna landhelginni okkar en við megum aldrei fara inn fyrir tólf mílna mörk við Noreg og Færeyjar.

Hvaða réttlæti er nú fólgið í því að semja svona við aðrar þjóðir? Í mínum bókum kallast svona nokkuð minnimáttarkennd eða aumingjagóðmennska, jafnvel hvoru tveggja!“

Augljóslega blasir við að skipstjórarnir á Ísleifi eru nafnar þjóðkunnra karaktera úr sjónvarpi, bændanna Magnúsar og Eyjólfs, en eiga ekkert sameiginlegt með þeim nema hugsanlega það að karlgarmarnir ganga í gúmmískófatnaði líkt og Maggi gerði – áður en Eyjólfur lagði á hann loðnustígvélabann. Um þetta segir Maggi:

„Við erum nú ekki með mynd af þessum frægu nöfnum okkar á vegg í brúnni en ég kannast vel við samlíkinguna. Strákarnir í áhöfninni pískra stundum um Magnús og Eyjólf og þá heyrist vel á tóntegundinni hvaða náunga þeir hafa í huga.“

Viðauki: Fróðleiksmolar um uppruna karaktera

Leikararnir Karl Ágúst Úlfsson og Þórhallur Sigurðsson – Laddi túlkuðu sjónvarpsgoðsagnirnar Magnús & Eyjólf sem birtust (líklega) fyrst á skjánum í áramótaskaupinu á gamlárskvöldi árið1985. Tilefni grínsins var linnulítil leit Ómars Ragnarssonar að skrítnum körlum til dala og heiða til að sitja fyrir upptökuvél og ræða málin. Sumir voru að vísu tæplega talandi og þurfti að texta þá svo hægt væri að skilja hið mælta mál.

Karl Ágúst og Laddi mótuðu karaktera Magnúsar & Eyjólfs Laufdal og eiga í körlunum takta og tilsvör sem mörg hver eru úrslitakryddið. Svona rétt eins og þegar dropar af bitter (dash) gera útslagið til að fríska kokkteil í glasi áður en drykkjarins er notið með bros á vör, bragð á tungu og sól í sinni.

Það var hins vegar Sigurður Sigurjónsson leikari sem lagði karakterum sjónvarpskarlanna til grunn til að byggja á. Helstu fyrirmyndir voru annars vegar bræður tveir á bæ í Borgarfirði, sem hann mundi eftir sem sumarliði þar í sveit, hins vegar tveir bræður í Ytra-Holti í Svarfaðardal, Garðar og Valtýr.

Siggi sá karlana og heyrði ýmislegt um þá þegar hann vann við upptökur á kvikmyndinni Landi og sonum nyrðra sumarið og haustið 1979. Hann saug í sig nokkur býsna sérstök karaktereinkenni bræðranna. Fata í handarkrika Eyjólfs er til dæmis sótt beint í búskapinn í Ytra-Holti og andlegt ofbeldi Magnúsar gagnvart Eyjólfi á sér hliðstæðu í framkomu Týra við Gæja bróður.

Borgarfjarðarbræðurnir eru fyrir löngu horfnir af heimi hér og það eru bræðurnir í Ytra-Holti líka. Bær þeirra síðarnefndu var meira að segja jafnaður við jörðu að þeim gengnum og þar stendur nú löng og mikil skemma, fyrrum loðdýrahús en núverandi aðsetur og vettvangur Hestamannafélagsins Hrings.

Fyrir kemur að hestamenn í Hring verða tilsýndar í rökkri varir manns sem gengur um tún og handdreifir tilbúnum áburði. Það er svipur (vofa) Gæja í Holti með fötu í krikanum milli upphandleggs og síðu.

  • Fróðleiksmolarnir eru annars vegar byggðir á samtali heima í stofu í Hafnarfirði hjá Sigurði Sigurjónssyni og tíkinni Mollý í apríl 2017 og hins vegar á eigin lífsreynslu vefritstjóra VSV.
Maggi skipstjóri Jónasar í brúarglugga.
Magnús & Eyjólfur – alias Karl Ágúst og Laddi.
Siggi Sigurjóns með Mollý.
Loðnuhaugur.

Grein frá vef Vinnslustöðvarinnar.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search