20.12.2020
Úr ritdómi um hið magnaða stórvirki, Íslenskir fuglar og þjóðtrúin:
„Þegar reiðarþrumur gengu taldi músarrindillinn að himininn myndi niður detta og fleygði sér því á bakið og setti upp annan fótinn eins og til að styðja við himininn. …
Þá er skýrt frá því hvernig músarrindlinum tókst – bæði í íslenskri og erlendri þjóðtrú – að láta kjósa sig konung fuglanna.
Það eitt, slægð þessa litla fugl og sá titill, sem honum tekst að krækja í, ætti að veita músarrindlinum mun hærri sess en hann skipar í daglegu lífi okkar.
Músarrindillinn kemur einnig fyrir í galdri og má m.a. lesa að væri hjartað tekið úr músarrindli og sett í hnífsskaft yrði sá skurður ólæknandi sem af þeim hnífi hlytist.
Og sannreynt mun það vera að sá sem rjóði blóði músarrindils um augu sín verði sjáandi jafnt á nóttu sem degi.
Og vildi maður vita hvað sá hugsaði sem talað var við skyldi maður taka músarrindilshjarta, þurrka það, binda í hvítt klæði og halda því svo á laun í hægri hendi. Þá myndi hugur þess sem talað var við vera sem opin bók.
Þá kunni músarrindill einnig að spá fyrir veðri og því hagnýtt að kunna að lesa í hegðun hans.“
Brot úr ridómi Jakobs Jónssonar sem birtist í Kjarnanum 14. des. 2020