Af hverju ekki?

“Hvernig datt þér í hug að fara í þessa pólitík Guðni minn” spurði vinur minn mig um daginn.  Svarið var “af hverju ekki?” Ég þurfti samt  smá umhugsunarfrest áður en ég tók tilboði um 4. sæti hjá Miðflokknum.

Eitt af því sem ég velti fyrir mér var hvort ég væri með rétta yfirbragðið í þetta, fólk er nú mun vanara að sjá mig í vinnugallanum. En er það ekki bara í lagi? Ég er allavega ákveðinn í að halda áfram að vera ég, bara í nýju hlutverki. Jafnvel þó ég þurfi kannski að fara aðeins oftar með jakkafötin í hreinsun. Mín helstu rök fyrir ákvörðun minni eru að þarna sé ég færi á að hafa áhrif. Ég fæ tækifæri til að vinna að málefnum sem eru mér kær, málefni sem skipta okkur eyjamenn máli. 

Og þó að Miðflokkurinn sé ekki hluti af bæjarstjórn (ekki enn) þá er ég alltaf tilbúinn í spjall við okkar bæjarfulltrúa um málefni bæjarins. 

Heilbrigðismálin verða fyrirferðamikil hjá okkur. Það þarf að  styrkja þjónustu í heimabyggð. Það er sárt að sjá nýja foreldra þurfa að húka í Reykjavík með fylgjandi tekjutapi og auka kostnaði. Fólk þarf allt of oft að sækja þjónustu til Reykjavíkur, sem það ætti að geta sótt í sínum heimabæ. Vinna þarf markvisst að því að eyða löngum biðlistum sem hafa safnast upp víðsvegar í heilbrigðiskerfinu á skynsaman hátt. T.d. með því að koma á samstarfi við einkaaðila til að létta á kerfinu frekar en að senda fólk til Svíþjóðar fyrir margfaldan kostnað. Geðheilbrigði er mér einnig ofarlega í huga, en mikilvægt er að auka aðgang að þjónustu  fyrir alla. Ólíðandi er að fólk t.d. með ADHD þar sem einkenni eru farin að vera verulega hamlandi þurfi að bíða í einhver ár eftir greiningu og nauðsynlegri lyfjagjöf.   

Eldri borgarar og öryrkjar hafa oft setið útundan og hefur lítið gerst í þeirra málum þó að núverandi stjórnarflokkar hafi lofað bót og betrun fyrir 4 árum. Þessa málaflokka þarf að hafa aðskilda og einfalda regluverkið. Núverandi hindranir á atvinnu eldri borgara verður að afnema og kjör allra þarf að bæta. 

Sjávarútvegurinn er eitthvað sem kemur öllu eyjafólki við. Á Íslandi er sjávarútvegurinn ekki ríkisstyrktur ólíkt því sem er að gerast víða um heiminn. Heldur er hann að skila góðri afkomu, þó hann verði að sjálfsögðu fyrir sveiflum eins og allar aðrar atvinnugreinar. Kerfið er því gott, þó það sé ýmislegt í því sem þarf að endurskoða. Það þarf bara að passa að nota skynsemina í stað þess að setja allt á hvolf með ofstækistillögum. 

Líkt og með heilbrigðiskerfið þá er önnur þjónusta sem má vel efla á landsbyggðinni. Iðnnám mætti t.d. vel efla í skólum alls staðar á landinu. Eins og staðan er í dag þá komast ekki allir að og biðlistar eru farnir að myndast. Mætti ekki efla þessa þjónustu í heimabæ? Ég veit að fyrirtæki í heimabyggð myndu taka vel í þá nýbreytni og aðstoða nemendur með verklega hlutann af náminu. 

Guðni Hjörleifsson

4.sæti Miðflokksins í Suðurkjördæmi 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is