Ævintýralíf Sunnu og Heimis í Danmörku
– með risastóran garð með gróðurhúsi og matjurtagarði –
Sunna og Heimir fluttu til Danmerkur fyrir rúmum þremur árum síðan. Sunna ólst upp í Danmörku og flutti aftur til Íslands þegar hún var 18 ára og ætlaði þá að vera í eitt ár á Íslandi áður en hún færi í skóla. En Sunna kynntist Heimi og ílengdist í 5 ár. En náði svo loks að sannfæra hann um að koma með sér til Danmerkur, en Danmörk er “heim” fyrir henni. Það var aðallega veðrið sem varð til þess að hann sló til, og loforðið um að mótorhjólatímabilið í Danmörku væri töluvert lengra en á Íslandi. Tígull heyrði í Sunnu vegna komandi tónleika og fékk að fræðast aðeins um líf þeirra Heimis í Danmörku.
Finnst ég loksins vera komin á réttan stað
Ég ætlaði alltaf að sækja um í tónlistarháskóla hér í Aarhus um leið og ég kæmi aftur. Ég skráði mig í prófið og borgaði staðfestingargjald, en missti sjálfstraustið í smástund og mætti ekki í inntökuprófið. Svo fór ég að gera allt annað, en ég fór að vinna sem einkaþjálfari og yfirmaður í líkamsræktarstöð í 2 ár en vissi samt alltaf að ég væri ekki á réttum stað, því mig langaði alltaf að gera meira í tónlistinni. Ég fór líka eitt sumar að vinna sem flugfreyja en ákvað svo að bara að skella mér í inntökuprófið í skólanum. Það er þríþætt og frekar strembið fyrir mig sem hef aldrei spáð mikið í tónfræði og sjálfri þeoríunni bakvið tónlist, ég hef alltaf bara spilað og sungið. En ég komst inn og er búin með fyrstu önnina og ég gæti ekki verið hamingjusamari, finnst ég loksins vera komin á réttan stað.
Ræktum allskyns grænmeti á sumrin og fengum okkur hænur
Heimir fór beint að vinna og að einbeita sér að því að læra dönskuna. Við keyptum okkur svo lítið sætt hús 25 mínútum utan við Aarhus og erum búin að gera það upp. Eða réttara sagt erum við enn að, en ég veit ekki hvort það sé einhvern tímann alveg búið. Við erum með risastóran garð með gróðurhúsi og matjurtagarði þar sem við ræktum allskyns grænmeti á sumrin, við erum líka með epla- og plómutré og brómberja-, sólberja- og hindberjarunna. Svo fengum við okkur nokkrar hænur í maí og það er búið að vera ótrúlega gaman og spennandi og við erum algjörlega eins og eitthvað klikkað hænufólk búin að skíra þær allar og tölum endalaust um hænurnar okkar þegar við hittum annað fólk.
Heimir er búinn að vera á sama vinnustað í þrjú ár og er núna að fara að mennta sig í einskonar rafeindavirkjun en vinnustaðurinn hans er að senda hann í nám á fullum launum sem tekur 4 ár og byrjar á mánudaginn. Náminu er skipt upp í skóla- og vinnutímabil, og á vinnutímabilinu fer hann aftur á vinnustaðinn sinn og lærir þar af rafvirkjameistara. Hann keypti sér fljótlega Harley Davidson hjól sem hann rúntar á og við erum búin að kaupa gamalt mótorhjól fyrir mig sem við ætlum að koma í stand í vor svo við getum ferðast um Evrópu á mótorhjólunum okkar.
Með miklar væntingar
Ég gaf út mína fyrstu plötu 2019, en ég safnaði fyrir henni inni á Karolinafund og með hjálp ótrúlega margra tókst það. Plötuna er að finna á Spotify og hægt að kaupa hana á geisladisk eða vínyl á www.sunnamusic.com. Ég spilaði nokkra tónleika eftir að platan kom út, en það er ótrúlega sérstök tilfinning að senda eitthvað frá sér sem er svona ótrúlega persónulegt, maður er með svo miklar væntingar og þetta er svo mikið spennufall þegar hún kemur út. Ég átti því mjög erfitt eftir að platan kom út, en ég hef barist töluvert við kvíða og þunglyndi í gegnum tíðina, og ég ákvað svo að taka mér bara algjöra pásu í lífinu. Ég tók sumarið í algjöra hvíld og sjálfskoðun, ég hugsaði vel um sjálfa mig, spilaði, skrifaði, málaði og gerði allt skapandi sem mér datt í hug. Við byggðum líka hænsnakofa, fórum til Tyrklands og Íslands, og nutum sumarsins í Danmörku, fengum fullt af gestum og ég byrjaði svo í náminu í ágúst.
Vorum valin til að spila á einu stærsta festival í Danmörku
Mér líður mun betur og er aftur farin á fullt að spila, núna með 4 strákum úr bekknum mínum í skólanum, og það er svo gaman hjá okkur og fullt að gerast. Meðal annars vorum við valin til að spila á Emergenza festival í febrúar sem er eitt stærsta festival fyrir upcoming bönd í Danmörku ásamt því að við eigum nokkur bókuð gigg í Aarhus og víðar á Jótlandi. En planið er líka að koma til Íslands í sumar með hljómsveitina og spila í Reykjavík á Kex Hostel og Lucky Records, á Skagaströnd þar sem ég er alin upp og svo í Vestmannaeyjum. Smáatriðin eru öll að smella og ég er á fullu að sækja um styrki til að fljúga hljómsveitinni og hljóðfærum yfir hafið. Það er meðal annars pedal-steel, banjó og kontrabassi í bandinu þannig við erum með töluverðan farangur. Svo er stefnan að gefa út meira efni á árinu, en ég á fullt af lögum sem mig langar að taka upp. Nákvæmar staðsetningar og dagsetningar koma í ljós mjög fljótlega og mun ég auglýsa það þegar nær dregur.
Draumurinn að gefa út bók
Ég er að vinna sem yfirmaður í félagsmiðstöðinni hérna í litla bænum okkar með náminu og gæti ekki verið ánægðari með það. Ég er eins og er á rithöfundanámskeiði hjá forlaginu Gyldendal hérna úti og er þar að vinna að því að skrifa smásögusafn, en ég elska að skrifa og stefni að því að gefa út bók einhvern tímann, eða það er allavega draumurinn.