Miðvikudagur 24. júlí 2024

Aðsend grein frá Lóu Baldvinsdóttir Andersen – kynbundið ofbeldi á konum

Á föstudaginn dönsum við gegn kynbundnu ofbeldi á konum. Við hreyfum okkur óhikað, veifum höndum, stöppum fótum, verðum glöð í öxlunum og ég er þess fullviss að einhver hendir sér niður og tekur orminn.

Í heiminum okkar búa konur enn við kynbundið ofbeldi, eins sorgleg og sú staðreynd er. Enn í dag mæta karlar og konur til sömu vinnu, sinna henni af sama krafti og alúð en þegar launaseðillinn kemur fá karlarnir hærri laun. Enn í dag eru litlar stúlkur umskornar vegna þess að einhver gömul lög, skrifuð af körlum, segja að þannig eigi þetta að vera. Kynfæri þeirra eru skrumskæld og eyðilögð fyrir lífstíð með aðferð sem oftast er gerð með handónýtum verkfærum og á stöðum sem eiga ekkert skylt við skurðstofu. Litlu stúlkurnar upplifa nánast óbærilegan sársauka, margar fá sýkingar og margar deyja.

Enn í dag deyja konur oft á dag vegna þess að karlar drepa þær af því þær gerðu hlutina ekki eins og þeir vildu eða þær sögðu hluti sem þeir kærðu sig ekki um. Margar konur lifa í stöðugri hræðslu við kærasta, barnsfeður, sambýlismenn og eiginmenn, hræddar um að segja ekki rétt, gera ekki rétt, vera ekki rétt.

Enn í dag labba konur heim af djamminu, með lyklana á milli fingranna, piparúðann í hendinni og hjartað hamandi í brjóstinu af hræðslu yfir að vera áreittar, þeim nauðgað eða þær drepnar.

Enn í dag fara konur á skemmtistaði og karlar grípa í brjóst þeirra,rass og píku vegna þess að enn í dag líta fjölmargir karlar á konur sem sína eign og sín leikföng.

Enn í dag opna konur snapchat eða messenger og þar bíður þeirra typpamynd frá karli, typpamynd sem þeim langar núll að sjá og báðu ekki um.

Enn í dag fæðast stúlkur og það er bókað mál að þeirra bíða ekki sömu tækifæri og drengir hafa.

Enn í dag er verið að hrútskýra fyrir konum hluti sem þær vita allt um.

Enn í dag er krafan að konur séu heima með veik börn, karlar sem taka það að sér til jafns við konur eru ,,Kellingar“

Enn í dag heyrist sagt við strákana okkar þegar þeir gráta ,,Æ vertu ekki að væla, ertu stelpa“ eins og bara stelpur gráti og að það sé slæmt að gráta. ,,Þessir helvítis feministar, alltaf röflandi, veit ekki betur en að konur standi jafnfætis körlum nánast alls staðar“.

Samkvæmt því eru umfjöllunarefni mín hér að ofan kjaftæði og uppspuni…… Nei því miður er kynbundið ofbeldi gegn konum ekki á undanhaldi….. Samfélagið er karllægt, finnst karlar konum fremri og feðraveldið lifir góðu lífi og hefur tögl og haldir á fáránlega mörgum stöðum í þessum heimi.

Ég hvet alla til að líta í kringum sig, líta á konurnar sem þeir þekkja og velta fyrir sér hvort þær standi jafnfætis körlunum sem þið þekkið hvað varðar allt í samfélaginu, ég er þess fullviss að svarið ykkar verður NEI.

Dönsum gegn kynbundnu ofbeldi á föstudaginn, köstum svo mæðinni og berjumst gegn kynbundnu ofbeldi þar til fullu jafnrétti er náð og konur geta óhræddar labbað einar heim……þó það sé nótt…..

Lóa Baldvinsdóttir Andersen

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search