11.04.2020 kl 14:50
Takmarkanir líklega í gildi yfir sumartímann
Næstu skref eru að fylgjast mjög náið með framþróun faraldursins og við þurfum að bregðast mjög hart við staðbundnum sýkingum eins og gert hefur verið fram að þessu. Varðandi hvað tekur við eftir 4. maí þá segir Þórólfur það ljóst að þá munu hefjast aðgerðir til að létta á þeim takmörkunum sem gripið hefur verið til þessa.
Hann tók þó fram að það væri ekki til nein rétt aðferð til að aflétta takmörkunum og að þjóðir heimsins myndu gera það með mismunandi hætti eftir því sem yfirvöld í hverju landi telji að henti þeim best.
Landsmenn verði undirbúnir undir takmarkanir á stórar samkomur í sumar
Þetta verður hins vegar að gera á tiltölulega löngum tíma þannig að við séum nokkurn veginn viss um að faraldurinn blossi ekki upp að nýju. Þórólfur mun á næstu dögum senda tillögur um hvernig best sé að aflétta takmörkunum sem eru í gildi núna. Það verður þó líklega ekki fyrr en eftir páska. Engum af núverandi aðgerðum verður aflétt fyrr en eftir 4. maí.
Það verður að aflétta aðgerðum hægt í skrefum og hvert skref mun taka þrjár til fjórar vikur þannig að aflétting mun líklega ná yfir sumartímann. Ef það kemur hins vegar í ljós að aflétting aðgerða mun hafa í för með sér aukningu á sjúkdómnum þá kemur vel til greina að herða á aðgerðum aftur þannig að það borgar sig að fara frekar hægt. Þórólfur biður landsmenn að vera undir það búna að takmarkanir verði settar á stórar samkomur í sumar.
Aðgerðir eins og handþvottur, spritta hendur, virða tveggja metra reglu og fleira verður líklega áfram í gildi út þetta ár. Þá mun þurfa að setja takmarkanir á komu ferðamanna til landsins og verið er að hugsa hvernig best sé að útfæra það. Þórólfur bindur ekki vonir við að bóluefni muni leysa stóru vandamálin varðandi kórónuveiruna og við verðum að reiða okkur áfram á þær aðgerðir sem við höfum verið að nota undanfarið.
Lesa má alla fréttina inn á mbl.is – forsíðumynd / Lögreglan