Halldór B. Halldórsson

Aðgengi fyrir alla, eða bara suma?

Sum málefni eru mér hugleiknari en önnur.
Þessa dagana sýður stolta eyjahjartað inní mér yfir samgöngunum okkar (eða ósamgöngum öllu heldur), reikningunum sem hækka nánast mánaðarlega frá HS veitum, endalausum auknum útgjöldum í formi hækkunar á öllu í þjóðfélaginu og síðast en ekki síst því máli sem alltaf hefur verið mér hugleikið en sérstaklega síðan móðir mín greindist með MS sjúkdóm fyrir 25 árum síðan.
Málefnið er aðgengi fyrir alla! Miklar framfarir urðu hér í bæ þegar átakið „Römpum upp Ísland“ átti sér stað árið 2022 og að mínu mati ætti Haraldur Þorleifsson og hans fólk, skilið styttu af sér í miðbænum fyrir þetta frábæra verkefni sem gefur þeim sem þurfa á því að halda svo ofboðslega mikið.
Það er með ólíkindum að árið 2024 séu ennþá fyrirtæki og stofnanir sem ekki bjóða uppá almennilegt aðgengi fyrir þá sem notast við hjálpartæki. Í einhverjum tilfellum er þetta vissulega bara hugsunarleysi, fólk sem þarf ekki á hjálpartækjum að halda sjálft fattar bara ekki að það geti ekki boðið öllum aðgang að þjónustunni eða versluninni. Í öðrum tilfellum er þetta einfaldlega „Mér er mökk“!! Í flestum tilfellum er það sáraeinföld aðgerð að laga svona aðgengi og þarf alls ekki að vera kostnaðarsamt.
Nú á ég bæði móður sem notast við hjólastól og son sem notast við hjálpartæki og á erfitt með gang. Ljóst er að ástand hans á ekki eftir að lagast og erum við fjölsyldan því strax farin að huga að aðgengismálum á heimilinu okkar sem og í nærumhverfi til þess að auðvelda honum lífið og tilveruna ef það kemur til þess að hjólastóllinn verði hans frelsi til að ferðast um. Einnig er ég starfandi í Kvennakór Vestmannaeyja þar sem kær söngsystir okkar notast við hjólastól og þekki ég því nokkuð vel hvað felst í því að komast ekki leiðar sinnar eða geta gert það sem mann langar. Það er því þyngra en tárum taki að sjá hér í bæ starfandi fyrirtæki og stofnanir sem er bara „mökk f.. sama“ eða, ég ætla rétt að vona, áttar sig hreinlega ekki á stöðunni.
Nú ætla ég bara að gerast svo frökk að telja hér upp nokkrar hindranir sem hafa orðið á vegi okkar sem og annara í okkar stöðu, í þeirri von að fólk fari að vakna til lífsins í þessum málum, lagi þetta og hafi hugfast í nýbyggingum, framkvæmdum og endurbótum.
Tónlistarskóli Vestmannaeyja. Stofnun í eigu bæjarins sem á að geta þjónustað alla bæjarbúa. Notir þú hinsvegar hjálpartæki kemstu inn um aðalinnganginn og að skóhillu. Þar verður þú bara að vera því við taka tvö þrep. Ef svo heppilega vill til að þú eigir sjálfur ferðarampa sem þú getur komið með með þér, sem kórsystir mín er svo heppin að eiga, kemstu inn í sal skólans. Þurfir þú að nota salernisaðstöðu verður þú hinsvegar að fara heim eða bara gera í buxurnar því ekkert salerni er á jarðhæð og á annan tug þrepa í salernið. Þetta væri auðvelt að laga með því að skera hreinlega hurðargat frá gangstéttinni á gluggavegg salarins, setja þar hurð með rafmagni og takka. Svo þarf að skella einu salerni með aðgengi fyrir hjólastóla fyrir utan salinn. Þá ertu búin að tryggja að hægt sé að kenna öllum þeim sem vilja læra í skólanum og að aðstandendur nemenda sem notast við hjálpartæki geti sótt tónfundi, tónleika og aðra viðburði í húsnæði Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Jú vissulega er á stefnuskrá bæjarinns að byggja nýjan tónlistarskóla við Hamarsskóla en það er nú ekki einu sinni búið að taka fyrstu skóflustunguna þar svo það er ekkert sem gerist á næstunni. Þetta er ekkert nýtt á nálinni því aðgengið að skólanum verið svona held ég alla tíð. Ekki var þetta skárra í Arnardrangi á sínum tíma……
Póley. Afskaplega falleg verslun bæði að innan sem og utan. Fékk meira að segja umhverfisverðlaun Vestmannaeyja árið 2023 fyrir „Endurbætur til fyrirmyndar“. Að mínu mati hefði mátt hafa eitt í huga við þessar endurbætur. Mér sárnaði því mjög í sumar þegar ég gekk með mömmu í hjólastólnum um bæinn og sá þennan fallega verðlaunaplatta hangandi á húsvegg verslunarinnar en það var ekki fræðilegur möguleiki að við mamma gætum kíkt þarna inn.
Slippurinn. Það er fátt betra og sumarlegra en að fara á Slippinn í góðra vina hópi. Ég ætlast til þess að þeir sem ekki nota hjálpartæki viti um hvað ég er að tala. Hinir vita það ekki því það er ekki fræðilegur möguleiki að koma þeim inn á þennan stað.
Háaloftið. Bíður þeim sem ekki nota hjálpartæki að sækja viðburði eins og tónleika og fleira nokkrum sinnum á ári.
Vissulega eru fleiri staðir sem mega taka þetta til sín og er þessi listi því ekki tæmandi. Sviðið í Herjólfsdal er t.d. ekki ætlað neinum nema vel gangandi fólki svo eitthvað sé nefnt.
Einnig hvet ég alla í rekstri að athuga vel hjá sér aðgengi innandyra því eitt þrep fyrir manneskju í hjólastól er eins og Heimaklettur fyrir okkur hin.
Gerum betur í aðgengismálum fyrir alla.
Ást og friður,
Kristín Halldórs.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search