Fólkið sem starfar fyrir Eyjalistann hefur fullan hug á að gera vel við fatlað fólk í samfélaginu. Á síðustu fjórum árum gerðust stórkostlegir hlutir í málefnum fatlaðra þegar íbúar sambýlisins fluttu yfir í glænýjar íbúðir sem við köllum Kjarnann í dag. Í þessum íbúðum eru innréttingar hugsaðar með þarfir einstaklinganna í fyrirrúmi. Einnig fjölgaði íbúðum svo að fleiri komust að.
Átak í aðgengismálum
Það var farið í átak í aðgengismálum en við vitum öll að gott aðgengi í bænum skiptir öllu máli. Við ætlum ekki að slaka á í þeim málum heldur halda áfram að skapa hvata fyrir alla bæjarbúa, íbúa og fyrirtæki, til þess að bæta aðgengi. Síðustu fjögur ár hafa götukantar verið lagaðir, aðgengi við inngang Barnaskólans var lagað, færanlegri stólalyftu var komið fyrir í sundlauginni og sérstakur búningsklefi var settur upp með góðu aðgengi og aðstöðu til þess að hafa með sér fylgdarmann.
Við vitum samt sem áður að alltaf má gera betur og þangað stefnum við.
Mikilvægi hæfingarstöðvarinnar
Heimaey hæfingarstöð er öflugur vinnustaður og þar er unnið mikilvægt starf. Starfsfólk hæfingarstöðvarinnar er sífellt að finna spennandi verkefni fyrir notendur og nú viljum við í Eyjalistanum efla starfsemina með bættri aðstöðu. Við viljum einnig stuðla að atvinnutækifærum fyrir fatlaða í sveitarfélaginu í samvinnu við ríkið og einkafyrirtæki.
Við vitum hve mikilvægt það er fyrir fatlaða að fá að spreyta sig í hinum ýmsu störfum. Nú þegar er bærinn með nokkur slík störf í boði en það þarf að gera betur og finna fleiri störf og fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk.
Að lokum má benda á að Eyjalistinn hefur sett upp rampa við kosningaskrifstofu sína að Kirkjuvegi 19 og býður alla bæjarbúa velkomna að líta við í kaffi og spjall.
Við viljum, getum, ætlum og þorum!
Helga Jóhanna Harðardóttir
Skipar 2. sæti Eyjalistans