Fimmtudagur 29. febrúar 2024
Guðni Hjöl

Aðeins um netagerð

Árið 1979 byrjaði ég að vinna hjá Netagerð Ingólfs.

Ég fór á samning, kláraði námið og náði mér í meistararéttindi og fékk að kalla mig netagerðarmann.

Eftir nokkur ár í netagerð ákvað ég að prófa aðra hluti og við tóku nokkur ár þar sem ég reyndi fyrir mér í skemmtanabransanum, sjómennsku og múrverki í anda pabba heitins. Árið 1993 eða fyrir nær 29 árum lá svo leiðin aftur í veiðarfærin og hef ég haldið mig þar síðan. Ég fór að vinna fyrir Magga Kristins hjá Berg Huginn og fylgdi fyrirtækinu yfir til Síldarvinnsluna þegar þeir keyptu það árið 2012. Það má því segja að ég sé með yfir þrjátíu ára reynslu á þessu sviði. Á þessum þrjátíu árum hef ég verið duglegur við að viðhalda minni þekkingu á botntrollum, hef kynnt mér nýjungar, farið á ráðstefnur og unnið í þróun á veiðarfærunum.

Upp á síðkastið hef ég verið svolítið hugsi yfir því hvert greinin stefnir og oft hef ég áhyggjur af stefnunni. Þessar pælingar fengu síðan meiri byr þegar ég fór austur á Neskaupsstað um daginn til að vinna í loðnunót. Ég fór ásamt þremur skipverjum af Vestmannaey VE 54. Ég hef tileinkað mitt starf í vinnu við botntroll og því var góð tilbreyting að komast í nótnavinnu eftir 40 ára pásu. Mikið var í húfi enda loðnuvertíð komin á fullt og nauðsynlegt að koma nótinni í lag á góðum tíma, en í þessum aðstæðum eru vinnudagarnir langir sem hífa upp laun þeirra sem vinna við þetta. En það sem vakti athygli mína þarna var að þegar litið var yfir mannskapinn, þá var þarna töluvert af fólki sem eru að komast á aldur. Það er nefnilega því miður allt of lítil endurnýjun í greininni að mínu mati.

Ástæðurnar eru margvíslegar og spila launin eflaust þar inní. Ég sjálfur varð hugsi og fór að spá hvort ég hefði kannski valið vitlaust. Hefði ég kannski átt að fara í aðra iðngrein? Einhverja sem bauð upp á meiri möguleika? Ég hefði t.d. alveg getað haft metnað í að klára múrarann. Þá hefði ég haft möguleikann á að stjórna mínum tekjum meira, starfað undir einhverjum, starfað sjálfstætt eða jafnvel gerst atvinnurekandi með nokkra menn í vinnu. Í netagerðinni eru litlir sem engir möguleikar á slíku. Vissulega eru netaverkstæðin stór og glæsileg, en launin þurfa að fylgja til að viðhalda metnaðinum fyrir starfinu.

Eftir því sem ég kemst næst þá eru 11 netagerðarmenn starfandi í Vestmannaeyjum í dag. Yngsti er 51 árs, næst yngsti er 52 ára en restin er komin yfir 60. Því miður held ég að þetta sé langt frá því að vera einsdæmi hér í eyjum. Að vísu eru töluvert fleiri sem hafa lært iðnina, en það er að stórum hluta stýrimenn, skipstjórar og aðrir sem ætla að nýta sér menntunina þegar þeir nálgast aldur og ætla að eyða síðustu árunum á vinnumarkaðinum í landi (og ekki lækkar meðalaldurinn við það). Ég tel því vera nokkuð augljóst að tími sé til kominn hjá atvinnurekendum og útgerðum að horfa í eigin barm og grípa til margvíslegra og markvissra aðgerða til að auka nýliðun í stéttinni. Þetta þarf að gerast fljótlega til að missa ekki þekkinguna sem nú þegar er til. Því ef ekkert verður gert er hætt við að þekkingin og fagmennskan sem er í greininni í dag tapist, þekking sem tekur mörg ár að vinna sér inn og lærist ekki á nokkrum árum. Ég vona innilega að allir aðilar átti sig á þessu áður en það gerist og greinin endi í öngstræti þekkingarleysis og vankunnáttu.

Með vinarkveðju. Guðni Hjörleifsson.
Netagerðarmeistari (Veiðafæratæknir eins og það kallast í dag)

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search