Hraunbúðir

Aðeins Um Hjúkrunarrými Og Hraunbúðir

07.02.2020

Vestmannaeyjabær rekur Hjúkrunar-og dvalarheimilið Hraunbúðir fyrir framlag sem ríkið leggur til þjónustunnar. Ýmsar spurningar koma upp varðandi hjúkrunarrýmin og með þessari grein er reynt að upplýsa nokkra þætti um málefni Hraunbúða. Rétt er að benda á að ríkið ber ábyrgð á þjónustu við aldraða og setur málaflokknum stefnu og skammtar fjármagn. 

Hvað er hjúkrunarrými og hvernig er metið inn á biðlista eftir hjúkrunarrými ?
Hjúkrunarrými er rými á hjúkrunarheimili ætlað einstaklingum sem eru of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, eða hvíldarinnlögnum.  

Þegar búseta í heimahúsi er fullreynd og þörf er orðin á að sækja um varanlega vistun á hjúkrunarheimili, er send umsókn til Færni-og heilsumatsnefndar í heilbrigðisumdæmi Suðurlands sem staðsett er á Selfossi.  Nefndin óskar þá eftir upplýsingum frá heimahjúkrun, læknir og félagsráðgjafa þar sem viðkomandi býr, um heilsufar og félagslegar aðstæður.  Að lokinni þeirri upplýsingaöflun tekur nefndin umsóknina fyrir og samþykkir eða synjar viðkomandi um að komast á biðlistann. 

Ef viðkomandi hefur verið samþykktur á biðlistann fær umsóknin stig sem meta hversu hátt hún raðast á biðlistann.   
Þeir sem sækja um færni-og heilsumat geta óskað eftir því að fara á hvaða hjúkrunarheimili sem þeir óska  eftir á Íslandi.  Það er líka hægt að sækja um fleiri en eitt heimili og tilfærslu á milli heimila.  

Hvernig er inntöku nýrra heimilismanna á Hraunbúðir háttað ?
Þegar rými losnar á Hraunbúðum (eða á öðrum hjúkrunarheimilum) senda stjórnendur fyrirspurn á Færni-og heilsumatsnefnd Suðurlands og óska eftir upplýsingum um það hverja megi taka inn samkvæmt mati nefndarinnar.  Að því loknu er haft samband við viðkomandi einstakling og/eða aðstandendur og rýmið boðið. 

Hvað eru mörg rými sérstaklega ætluð einstaklingum með Alzheimer á Hraunbúðum ?
Engin hjúkrunarrými eru sérstaklega ætluð einstaklingum með Alzheimer né aðra sjúkdóma.  Rýmin sem Hraunbúðir eru með samþykkt fyrir eru skilgreind í annars vegar hjúkrunarrými og hins vegar í dvalarrými en í þeim ætti að vera mun minni þörf fyrir þjónustu.  Stefna ríkisins er að fækka dvalarrýmum og fjölga frekar í hjúkrunarrýmum. 

 Almennt er talið að um 70 % aldraðra á hjúkrunarheimilum séu með einhver einkenni heilabilunar og 30 % með Alzheimer (þá 40 % með aðra heilabilunarsjúkdóma). Ekki er þörf fyrir sérstök  úrræði fyrir alla sem greindir eru með heilabilun heldur ræðst það af því á hve háu stigi heilabilunareinkennin eru. Þjónustuþörf breytist oft eftir að einstaklingur er kominn inn á hjúkrunarheimili og stundum kemur fyrir að færa þarf á milli herbergja.

Nýja álman á Hraunbúðum sem opnuð var 2018 er hugsuð fyrir heimilismenn með sértækar þarfir þar á meðal alzheimer en ekki eingöngu.  Þau fimm herbergi sem komu til viðbótar í nýju álmunni voru byggð samkvæmt nýjum stöðlum um hjúkrunarheimili og í þeim eru brautir í loftinu og allt aðgengi mun betra en í gömlu herbergjunum fyrir þá sem hafa mikla hjúkrunarþyngd. Álman er almennt ekki „lokuð deild“, þó möguleikar séu á því.  
Hraunbúðir fengu ekki samþykki frá ríkinu fyrir fleiri rýmum við opnun álmunnar en nýja álman býður upp á rúmbetri herbergi fyrir heimilismenn og betri starfsaðstöðu.   

Af hverju ganga Vestmannaeyingar sem hafa borgað sína skatta og skyldur til samfélagsins í eyjum ekki fyrir þegar pláss losna ?
Hjúkrunarrými eru úrræði sem eru á ábyrgð ríkisins og ríkið er eitt svæði.  Ríkið gerir öllum þegnum sínum jafnt undir höfði sama hvar á landinu þeir búa. Ef Vestmannaeyingur vill sækja um á Hrafnistu í Hafnarfirði því börnin hans eru öll búsett þar er það mögulegt, ef einstaklingur búsettur í Reykjavík vill sækja um að komast á hjúkrunarheimili í Vestmannaeyjum getur hann gert það. 

Það er svo sá sem er með flest stig samkvæmt mati færni-og heilsumatsnefndar sem fær laust rými óháð búsetu.  Þó Vestmannaeyjabær sé rekstraraðili að Hraunbúðum að þá er það ríkið sem ákvarðar
fjölda einstaklinga sem má taka inn óháð búsetu,  leggur fjármagn í starfsemina (þó aldrei nægjanlega mikið) og við verðum að vinna eftir þeim lögum og reglum sem ríkið setur okkur.

Hversu mörg hjúkrunarrými og dvalarrými eru í Vestmannaeyjum ?
Hraunbúðir eru með samþykkt frá heilbrigðisráðuneytinu fyrir 31 hjúkrunarrými og 4 dvalarrýmum sem eru öll í fullri nýtingu.   Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum eru 7 hjúkrunarrými.  Fjölgun rýma er háð samþykki frá ráðuneytinu/ríkinu.  

Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í málefnum aldraðra hjá Vestmannaeyjabæ
Una Sigríður Ásmundsdóttir hjúkrunarforstjóri Hraunbúða

ÞETTA PLAGG MÁ FINNA UNDIR UPPLÝSINGAR Á VEFTRÉ HEIMASÍÐU

Grein er tekin frá vef hraunbúða

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is