22.05.2020
Ekkert nýtt smit kórónuveiru greindist hérlendis síðasta sólarhringinn. Aðeins tveir eru í einangrun og með virkt smit en 1.791 hefur náð fullum bata eftir að hafa greinst með veiruna. Þetta kemur fram í nýjum tölum á síðunni covid.is.

70 sýni voru tekin hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær, uppstigningadag, en ekkert hjá Íslenskri erfðagreiningu. 58.295 sýni hafa verið tekin í heildina.
1.803 hafa greinst með veiruna hér á landi frá því að fyrsta tilfellið greindist í lok febrúar.
Hvorugur þeirra sem er með virkt smit er á spítala.
886 eru í sóttkví, örlítið færri en í gær. Alls hafa 20.194 lokið sóttkví.
