Að kveikja neistann

Ný nálgun

Skólaárið 2021-2022 var hrundið af stað í Vestmannaeyjum þróunarverkefninu og menntarannsókninni, Kveikjum neistann sem spannar 10 ár. Um er að ræða nýja nálgun í kennslu sem er meðal annars byggð á vísindarannsóknum fremstu vísindamanna heims á sviði menntunar og heilbrigðis.
Grunnkenningar verkefnisins eru endurtekning (Edelman), markviss þjálfun og eftirfylgni (Ericsson), áskoranir miðað við færni (Csikszentmihalyi) og hugarfar grósku, ástríðu og þrautseigju (Dweck, Duckworth).

Til þess að innleiða þessa nýju leið fór af stað vinna við að hugsa upp nýja nálgun á skóladeginum. Fyrsta skrefið var að breyta stundatöflunni og einfalda skipulag skóladagsins. Mynduð voru teymi til að halda utan um áhersluþætti í náminu; lestur, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og áhugahvöt. Hlutverk teymanna er að styðja við verkefnið og styðja við 1. bekkjarkennara, aðstoða við að finna efni til að vinna með og finna áskoranir miðað við færni. Að baki rannsóknarinnar stendur öflugt teymi fræðimanna og sérfræðinga.

Námsmatið í lestri breyttist töluvert hjá okkur en í stað þess að leggja fyrir leshraðapróf MMS var útbúin lestrarskimun að norskri fyrirmynd þar sem einblínt er á lesfimi í stað hraða, þannig að nemendur nái ákveðnum fjölda bókstafa í umskráningu. Allir nemendur fóru fyrst í bókstafa- og hljóðakönnun þar sem skoðað var hversu marga bókstafi og hljóð þeir kunna. Lestrarskimanirnar skiptast svo í þrjú erfiðleikastig og var misjafnt eftir nemendum hvaða stig við lögðum fyrir þá. Lögð var áhersla á að leggja fyrir nemendur áskoranir við hæfi hvers og eins og tóku skimanirnar mið af því. Með því jókst sjálfstraust nemenda gagnvart náminu.

Upplifun

Með því að breyta stundatöflunni og einfalda hana fengum við meiri samfellu, allir dagar eru svipaðir í uppsetningu sem einfaldar nemendum að vita hvað kemur næst. Þar af leiðandi upplifa nemendur aukið öryggi og minna rót varð á skóladegi nemenda.

Eitt af því mikilvæga í þessu verkefni og það sem skiptir einna mestu máli var að fá foreldra í lið með okkur. Þeirra vinna við að auka áhugahvöt nemenda á lestri, skapa honum aukin sess í daglegu lífi og veita þá þjálfun heima sem þarf er afar mikilvægur þáttur. Lestrarþjálfun heima er mjög mikilvæg en í samstarfi við foreldra reyndum við að passa upp á að ekki skapaðist óþarfa streita heima. Ef venjulegur heimalestur var ekki að ganga fundum við aðrar leiðir, til dæmis stafaspil, námsleiki í spjaldtölvum og fleira. Það er svo mikilvægt að hafa lestrarþjálfunina fjölbreytta og tengja hana áhugasviði barnanna til þess að viðhalda áhuganum sem þau hafa flest í byrjun skólagöngunnar og skapa jákvætt hugarfar gagnvart lestri.

Við hægðum á okkur í innlögn á námsefni og förum þar að leiðandi betur í allan grunn og vinnum markvisst að því að ná honum vel og örugglega, áður en við höldum áfram. Bara það að hægja á okkur og meta hvað er “nauðsynlegt” fyrir nemanda í fyrsta bekk að kunna eftir skólaárið veitti bæði nemendum og kennurum ákveðna ró og breytti andrúmslofti námsumhverfisins til muna.

Þjálfunartímarnir eru einn af mikilvægu þáttum í stundatöflunni okkar. Þar er nemendum skipt í fjóra hópa þvert á árganginn og erum við með fjórða kennarann (aukakennara) með okkur í þeim tímum. Þá er nemendum skipt upp í hópa eftir stöðu hvers og eins og allir nemendur fá námsefni sem miðast við þeirra færni. Þetta gerði okkur kleift að vinna með nemendur sem þurfa á meiri aðstoð að halda, í litlum hópum þar sem unnið er með algjöra grunnfærni. En einnig skiptir máli að þeir nemendur sem eru lengra komnir fái líka áskoranir miðað við færni. Þarna eru því allir nemendur í hópi með börnum sem eru á svipuðu getustigi að vinna verkefni sem hentar hópnum. Með þessu vinnulagi hafa skapast aðstæður þar sem að nemendur hafa náð að vinna í góðu flæði.
Í þessum tímum leggjum við áherslu á íslensku/lestur þrisvar sinnum í viku og stærðfræði einu sinni í viku.

Ástríðutímarnir eru þeir tímar sem standa upp úr hjá mörgum nemendum og eru þeir þrisvar sinnum í viku. En þá velja nemendur á morgnanna hvaða tíma þeir kjósa að fara í eftir hádegi. Í þessum tímum erum við t.d.með smíði, tölvu, myndmennt, tónmennt, textílmennt og heimilisfræði. En þess ber að geta að nemendur fá allir að auki einn danstíma í viku hjá danskennara.

Hreyfing skipar stóran sess hjá okkur á hverjum degi. Nemendur fara í íþróttir og sund þrjá daga vikunnar, fljótlega í upphafi dags. Hina tvo dagana förum við í hreyfileiki, jóga og söng. Einnig reynum við að vera mikið úti þegar veður leyfir.

Uppgjör

Eftir krefjandi en jafnframt ánægjulegan, spennandi og aðeins öðruvísi vetur lítum við í baksýnisspegilinn og metum stöðuna og árangur nemenda, foreldra og kennara. Okkar tilfinning, upplifun og viðtöl við foreldra ásamt vísindalegum niðurstöðum segja okkur að við séum á réttri braut hvað verkefnið Kveikjum neistan varðar.

Árangurinn leynir sér ekki. Foreldrar eru í skýjunum með verkefnið og árangur barna sinna. Nemendum virðist líða vel í afslöppuðu og notalegu vinnuumhverfi með áskoranir miðað við hæfni.
Við 1. bekkjar kennararnir erum mjög stoltar og glaðar eftir fyrsta skólaárið í þessu verkefni. Ánægðar með góðan árangur nemenda og frábæra foreldrasamvinnu. Samvinna og samheldni okkar umsjónarkennara hefur líka skipt miklu máli í þessu ferli. Við sjáum að þessi nýja nálgun er að skila sér mjög vel í alla staði.
Við höfum svo sannarlega farið út fyrir rammann og upp og niður allan tilfinningaskalann. Við höfum rekið okkur á hindranir en líka fundið neistann og hlakkar okkur til að takast áfram á við nýjar áskoranir.
Síðast en ekki síst hefur staðið okkur þétt að baki öflugt teymi samstarfsfólks og sérfræðinga sem við höfum alltaf getað leitað til.

Við bendum á heimasíðu verkefnisins fyrir þá sem vilja kynna sér það betur: Kveikjum Neistann – heimasíða

Umsjónarkennarar í 1. bekk GRV
Erla Signý Sigurðardóttir,
Íris Pálsdóttir
og Margrét Elsabet Kristjánsdóttir.

Anna Lilja Tómasdóttir, Íris Pálsdóttir og Margrét Elsabet Kristjánsdóttir, Erla Signý Sigurðardóttir og Inga Sigurbjörg Árnadóttir.

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search