Hólmgeir Austfjörð er listamaður á myndavélina líkt og hann er lista kokkur eins og öll eyjan veit eftir að hafa snætt hjá þeim hjónum á 900 Grillhús hér um árið. Hann lofaði okkur að deila þessum myndum með ykkur en það hefur verið sjónarspil að horfa á snjóinn leggjast yfir allt.
King Ottó N lögðust að bryggju kl 03:00 í nótt en þeir lögðu af stað heim vestur af Snæfellsnesi í gær.
Ottó N Þorláksson ve lagði út á miðin síðastliðinn laugardag kl 16:00. Stefnan var strax tekin á vestfjarðamið, nánar tiltekið á Blönku. Trollið var í botni á sunnudagsmorgun kl 11:50.
Það var ljómandi góð veiði en svo dró úr henni þannig að við færðum okkur á Halann. Þar tók við fínt fiskerí, nokkuð jafnt og þétt. Við enduðum svo þar sem við byrjuðum.
Aflinn er um 380 kör sem eru 125 tonn, þetta fékkst eftir vel innan við 3 sólarhringa á veiðum.
Uppistaða aflans er þorskur eða um 52%, því næst er það ýsa eða 20%, svo kemur ufsi sem er 15% og karfinn rekur lestina með 11%. Restin er svo bland af hinum ýmsu tegundum ásamt lifur.
Myndirnar sem fylgja voru teknar á Halanum í logni og snjókomu, yfirborðshiti sjávar var við frostmark þannig að snjókoman lagðist yfir hafflötinn eins og hvítt teppi.
Skammt frá okkur var vígaleg ísrönd en hafísnum fylgir gjarnan fiskur.
Bestu kveðjur frá áhöfninni á King Ottó N