Ein af perlum Listasafnsins er Sængurkonusteinn Engilberts Gíslasonar
Á einum stað er haft eftir listamanninum að helst hefði hann viljað mála myndir sem setja á svið löngu liðinn tíma úr sögu Eyjanna.
Sagan af gæskunni sem blakti mitt í svartnætti Tyrkjaránsins í Vestmannaeyjum 1627 fangar andartakið þar sem sortinn víkur fyrir mannlegu eðli – eitt örstutt hik á óslökkvandi æði sem virðist hafa hertekið óvininn.
Sagan á bak við myndina er í stuttu máli sú að sagt er að kona ein að falli komin hafi hopað undan ógninni og leitað sér skjóls hjá steini einum miklum, skammt fyrir ofan bæinn sem þá var. Fæddi hún þar barn sitt.
Einn ræningjanna heyrði barnsgrátinn og kom að. Er hann sá umkomuleysi hins nýfædda hrærðist steinhjarta hans til meðaumkunar. Tók hann skikkju sína, skar um þvert og gaf móðurinn annan helminginn og lífið með.
Sængurkonusteinn stendur enn og er aðgengi þangað auðvelt.