10.07.2020
Allt stefnir í að engin þjóðhátíð verði í Vestmannaeyjum í ár sökum kórónuveirufaraldursins. Jónas Guðbjörn Jónsson, varaformaður þjóðhátíðarnefndar, segir að ef fari svo að 500 manna fjöldatakmarkanir verði áfram í gildi út ágúst sé borin von að halda þjóðhátíð í nokkurri mynd.
Jónas segir að stefnt hafi verið að því að halda þjóðhátíð fyrir heimamenn í Vestmannaeyjum þegar líklegt þótti að fjöldatakmarkanir yrðu rýmkaðar í 2.000 manns. Þeim áætlunum er þó sjálflokið að sögn Jónasar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt það líklegt að fjöldatakmörkunum verði haldið í 500 manns út ágúst. Áður hafði Þórólfur lagt til við heilbrigðisráðherra að 2.000 manns mættu koma saman frá og með 13. júlí.
Jónas segir að einhverjar þúsundir miða hafi selst á þjóðhátíð í ár og verið sé að vinna að því að endurgreiða miðana. Hann segir að skipulagning hafi verið sett á ís í mars og ekki verið komin langt.
„Það stoppaði allt. Við vorum rétt farin af stað með forsölu þegar þetta fer allt í stopp. Við vorum bara í startholunum með það, því var bara sjálfhætt. Það var bara þessi óvissa og við vorum ekki að gera neitt í þessu á meðan,“ segir Jónas.
Allt viðtalið má lesa hér inn á mbl.is