Árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár liðin frá eldgosinu í Surtsey
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, upplýsti bæjarráð um nýundirritaða viljayfirlýsingu hennar f.h. Vestmannaeyjabæjar og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um skipulagningu norræns ráðherrafundar forsætisráðherra, gerð minnisvarða og skipulagningu málstofu, í tilefni af því að árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár frá Surtseyjargosinu.
Markmiðið er þrenns konar:
1. Undirbúningur og skipulagning samnorræns fundar forsætisráðherra í Vestmannaeyjum. Fundurinn verði haldinn sumarið 2023 í tengslum við Goslokahátíð Vestmannaeyja.
2. Gerð minnisvarða á Heimaey með skírskotun til eldgosanna. Stefnt er að afhjúpun minnisvarðans á Goslokahátíð 2023.
3. Skipuleggja málstofu í samvinnu við Jarðfræðafélag Íslands, fræðasamfélagið, HÍ, Veðurstofu, almannavarnir, embætti ríkislögreglustjóra, áhugafólk og fræðimenn. Málstofan mundi svipa til Kötluráðstefnunnar sem haldin var árið 2018.
Með þessu er vakin athygli Íslendinga á eldgosunum og þýðingu þeirra fyrir náttúruna og samfélagið í Vestmannaeyjum og á meginlandinu. Jafnframt stendur til að kynna eldgosin fyrir ráðamönnum Norðurlandanna og færa þeim þakkir fyrir ómetanlega aðstoð meðan á eldgosinu á Heimaey stóð.
Bæjarráð fagnar viljayfirlýsingu forsætisráðherra og Vestmannaeyjabæjar um skipulagningu viðburða í tengslum við að árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár liðin frá eldgosinu í Surtsey. Af því tilefni hefur forsætisráðherra, f.h. ríkisstjórnar Íslands og bæjarstjóri, f.h. Vestmannaeyjabæjar lýst vilja til þess að standa myndarlega að þessum tímamótum í sögu Vestmannaeyja og samtímasögu landsins.