17.11.2020
Afli íslenskra fiskiskipa var 86.774 tonn í október 2020 sem er 5% minni afli en í október 2019. Botnfiskafli var tæp 40 þúsund tonn sem er 3% aukning samanborið við október 2019. Af botnfisktegunum nam þorskaflinn tæpum 24 þúsund tonnum sem er svipaður afli og á fyrra ári en tæpum 6 þúsund tonnum var landað af ýsu sem er 33% aukning miðað við október 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í gær.
Uppsjávarafli var rúm 44 þúsund tonn sem er 12% minni afli en í október 2019. Af uppsjávartegundum nam síldarafli 36 þúsund tonnum og kolmunnafli var 8,5 þúsund tonn. Skel- og krabbadýraafli dróst saman á milli ára og var 521 tonn samanborið við 1.072 tonn í október 2019.
Heildarafli á 12 mánaða tímabili, frá nóvember 2019 til október 2020, var tæplega 1.016 þúsund tonn sem er 5% minni afli en á sama tímabili ári fyrr.
Aflaverðmæti í október, metið á föstu verðlagi, var 5,2% minna en í október 2019.
Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggja á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis.