Þriðjudagur 27. september 2022

Stór verkefni framundan hjá Elísu

Elísa Viðarsdóttir landsliðskona gaf út bókina „Næringin skapar meistarann“ sem sló rækilega í gegn í nóvember síðastliðinn og ákváðum við hjá Tígli að heyra aðeins hvernig gengur hjá henni.
„Það hefur gengið vel með bókina, mikið af tækifærum sem spruttu út frá henni auk þess hef ég fengið fullt af skemmtilegum skilaboðum frá fólki sem hefur nýtt sér bókina til bætinga, þar liggur tilgangurinn hjá mér og þá er ég sátt. Ég er ekki byrjuð að skrifa aðra bók en það er aldrei að vita nema ég setjist aftur við skrifin einhvern daginn,“ segir Elísa.

Einstakt að alast upp sem barn í Vestmannaeyjum
„Eyjatengingin er alltaf sterk og það hefur alltaf blundað í mér að flytja á einhverjum tímapunkti aftur til Eyja. Að alast upp sem barn í Vestmannaeyjum er einstakt og ég væri til í að börnin mín fengju að upplifa það á einhverjum tímapunkti. Hvenær eða hvort verður að því er erfitt að segja til um eins og staðan í dag.“

EM og Þjóðhátíð hápunktur sumarsins
„Sumarin snúast aðallega um fótbolta hjá okkur Rasmusi og við njótum þess í botn að eiga þetta áhugamál í sameiningu. Ég fór á EM í Englandi ásamt fjölskyldunni og endaði sumarið svo á Þjóðhátíð sem var ótrúlega skemmtileg eftir 4 ára þjóðhátíðarpásu hjá mér.“

Heilræði fyrir ungu krakkana sem ætla að ná langt í fótbolta?
„Að einbeita sér að því sem maður hefur stjórn á en ekki því sem maður hefur ekki stjórn á. Í hópíþróttum er erfitt að hafa stjórn á hlutum sem maður ræður ekkert við eins og hvernig er valið í liðið eða hverjir eru valdir í landslið, það er alltaf ein manneskja sem ræður því og það er þjálfarinn. Ef þú einbeitir þér af því sem þú vilt bæta hjá þér dag frá degi þá á endanum munt þú bæta þig og auka líkurnar á að vera valinn í liðið eða landsliðið. Tilfinningin að geta sagt „ég gerði allt sem ég gat“ er góð tilfinning að bera í brjósti þegar maður lítur til baka,“ segir Elísa.

Nú ert þú fyrirliði Vals, hvaða eiginleika myndir þú telja að góður fyrirliði þarf að hafa? Er einhver ábyrgð sem fylgir því að vera fyrirliði?
„Fyrst og fremst að vera maður sjálfur og reyna að gefa af sér til annarra. Það skiptir miklu máli sem fyrirliði að vera í góðum samskiptum við þjálfara og leikmenn og passa upp á að öllum líði vel. Það er mikilvægt þegar maður er fyrirliði að vera leiðtogi á þann hátt að allir hafi tækifæri til að segja sínar skoðanir og hafi eitthvað til málanna að leggja auk þess að vera fyrirmynd innan sem utan vallar. Það er aukin ábyrgð að vera fyrirliði og fullt af verkefnum sem maður þarf að sinna fyrir hönd hópsins.“

Eftirlegasta minning úr fótboltanum?
„Ég á svo mikið af góðum minningum úr fótboltanum bæði tengt félagsliði og landsliði en það sem stendur alltaf upp úr hjá mér er Íslandsmeistaratitillinn með Val árið 2019 eftir að hafa gengið í gegn um barneignir og krossbandaslit. Ekki skemmdi fyrir að hafa gengið í gegn um þetta allt saman með Margréti systur.“

Hver er besta fótboltakona sem þú hefur spilað með?
„Margrét Lára er sú allra besta, algjörlega hlutlaust mat.“

Spennandi tímar framundan hjá Elísu
„Framundan hjá mér eru stór verkefni bæði með Val og landsliðinu, við erum í harðri baráttu um að koma okkur á HM á næsta ári og með Val erum við í Íslandsmeistarabaráttu auk þess sem við erum að fara að spila úrslitaleik í meistaradeildinni í lok september um að komast í riðlakeppnina. Það hefur alltaf verið markmið hjá mér að spila í riðlakeppni meistaradeildarinnar og því er mikil einbeiting á það verkefni. Auk þess að sinna fótboltanum er ég ótrúlega lánsöm að vera í vinnu bæði sem næringarfræðingur þar sem ég tek að mér fyrirlestra og staðviðtöl og síðan sem gæðastjóri hjá Kjarnavörum. Það er ótrúlega gaman að hafa nóg að gera og geta sinnt fótboltanum, fjölskyldunni og vinnunni í góðu jafnvægi.“

Er eitthvað að lokum?
„Takk fyrir stuðninginn á EM í sumar!“

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is