Á aðfangadegi jóla lýkur Jóladagatal Listasafns Vestmannaeyja göngu sinni að þessu sinni
Eins og eðlilegt er drögum við fram það sem við best eigum og mest metum. Júlíana Sveinsdóttir (1889-1966) markaði djúp spor sem fágæta listamaður og sem brautryðjandi í íslenskri myndlistarsögu en fyrir Vestmannaeyjar er hún einfaldlega okkar frægasti og þekktasti málari, enda þótt framlag Vestmannaeyja til íslenskrar sögu sé kannske merkast í sögu hins íslenska myndlistararfs.
Hrafnhildur Schram listfræðingur, sem er helsti sérfræðingurinn í Júlíönu, sagði í fyrirlestri er hún flutti hér:,,Vestmannaeyjar voru fyrsta og síðasta landslagsviðfangsefni hennar og það er þar sem hringurinn opnast og lokast. Eyjarnar urðu leiðarminni í list hennar og með tímanum umfangsmikill og merkur kafli ferils hennar í yfir hálfa öld eða frá 1912– 1964.“ Málverk dagsins er eitt 203 málverka er Íslandsbanki afhenti að gjöf Listasafni Íslands og til viðurkenndra safna.
Meðal verkanna eru viðurkenndar þjóðargersemar og eitt þeirra stígur hér út úr glugga aðfangadagsins. Málverkið gaf útibú Íslandsbanka í Eyjum Vestmannaeyjabæ er útibúið flutti búferlum innan bæjarins fyrr á þessu ári. En af hverju hefur okkur ekki auðnast að koma upp Júlíönusafni, okkur sem eigum og skuldum Júlíönu allt sem hægt er? Júlíönusafn í Vestmannaeyjum með fastri sýningu á hennar stórkostlegu listsköpun, í málverkum og vefnaði, getur ekki annað en orðið að veruleika. En hvað þarf til að nauðsyn okkar verði loksins framkvæmt?