Jóladagatalinu er ætlað að draga fram úr geymslum nokkrar af perlum Listasafns Vestamannaeyja.
Af þeim sökum fær hver listamaður aðeins einn glugga til yfirráða. En fátt er án undantekningar og svo háttar til einnig hér.
Engilbert Gíslason er á sinn hátt listmálari Safnahúss. Ekki sökum þess að hann sé talinn bera ægishjálm yfir alla aðra listamenn úr safnkostinum enda þótt enginn efi að Engilbert er og verður ævinlega í hópi hinna viðurkenndu listamanna Vestmannaeyja og Íslands. Ástæðan er fremur frumkvöðullinn og hamhleypan Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn fékk Engilbert til að mála fjölda mynda er sýndu veruleika sem var horfinn eða hallur í heimi. Tómthús er vikið höfðu fyrir reisulegri bæjum, pallarnir sem voru farnir eða á undanhaldi, andartaksmyndir af horfnum vinnubrögðum sem listamaðurinn þekkti og Þorsteinn vildi halda til haga. Þannig er efnið í glugga dagsins til komið.
Móhús við Kirkjubæ rís úr gleymsku, kot að því er virðist samvaxið jörðinni. En umhverfið segir einnig merka sögu. Á sléttu flötunum við Móhús æfðu ungir menn lengi frjálsar íþróttir og á þessum stað mun Evrópumeistarinn Torfi Bryngeirsson hafa sett sitt fyrsta Íslandsmet.