Það var haldinn blaðamannafundur nú kl. 11 og er hér samantekt af því sem kom fram:
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti þær aðgerðir sem gripið verður til. Breytingarnar taka gildi á hádegi á morgun, 31. júlí. Takmörkun á fjölda sem kemur saman mun miðast við hundrað einstaklinga. Börn 2005 eða síðar undanskilin. Þar sem fólk kemur saman verður tveggja metra reglan viðhöfð milli einstaklinga. Hún skyldubundin.
Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð er krafist notkunar andlitsgrímu, þetta á fyrst og fremst við um almenningssamgöngur, þ.e. flug og ferjur. Vinnustaðir og verslanir sem eru opin almenningi þurfa að skipuleggja sig þannig að ekki komi fleiri en 100 saman.
Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki hafi þá skyldu að tryggja aðgengi að sótthreinsibúnaði fyrir almenning, þ.e. spritti og slíku, og sinni þrifum eins og unnt er.
Sundlaugar og veitingastaðir þurfi að tryggja tveggja metra regluna í samræmi við stærð hvers rýmis. Einnig er lagt til að starfsemi á borð við líkamsræktarstöðvar og spilasalir geri annað tveggja: geri hlé á sinni starfsemi eða tryggi tveggja metra reglunni.
Þá er því beint til safna og annarra menningarhúsa að þeir geri hlé á starfsemi sinni. Opnunartími skemmti- og veitingastaða breytist ekki, áfram til 23.
39 staðfest smit eru í samfélaginu segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ein innlögn á sjúkrahús. Það þarf að grípa til mjög afgerandi aðgerða.
Alma Möller landlæknir: Verið er að skerpa á sýnatöku á landamærum. Til þess að hún virki þarf að skerpa á tvennu. Í fyrsta lagi að fólk haldi sig algjörlega til hlés þangað til neikvætt svar hefur borist. Við biðjum alla að stuðla að því að reglan sé virt.
Varðandi heimkomusmitgát er mikilvægt að fólk virði hana í hvívetna. Sú leið var farin því við viljum að ráðstafanir séu eins lítið íþyngjandi og kostur er. Það sem gildir um heimkomusmitgát er að ekki á að fara i mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu eru. Þetta á líka við um heilsurækt og sundstaði. Ekki á að vera í samneyti við fólk í áhættuhópum, forðast faðmlög og handabönd og vanda sig í einstaklingsbundnum sóttvörnum. Við þurfum öll að taka okkur vel á þar.