Gluggi dagsins færir okkur Eyjapeyjann og hinn virta listamann, Sverri Haraldsson
Sverrir ólst upp á Svalbarð í Vestmannaeyjum hjá afa sínum og ömmu, Bjarna Jónssyni og Önnu Tómasdóttur. Hér slítur hann barnsskónum en 17 ára gamall flytur hann til foreldra sinna í Reykjavík í frekara nám.
Verk dagsins er án titils en er málað 1950, þegar Sverrir er aðeins tvítugur að aldri. Þrátt fyrir hinn unga aldur var „undrabarnið í myndlistinni“ eins og hann var oft kallaður, þá þegar kominn út á hraðbrautina. Aðeins 16 ára fékk hann inngöngu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, yngstur allra, og 18 ára voru verk eftir hann tekin inn á haustsýningu FÍM.
22 ára hélt Sverrir sína fyrstu einkasýningu
Á sínum fyrstu árum sem listamaður málaði Sverrir áþekkar myndir og hér birtist. Tvítugur og uppfullur af innri skilningi málar hann frjáls frá höftum dulúðugar myndir sem leggjast ein af annarri yfir léreftið. Það er dásamlegt fyrir Listasafn Vestmannaeyja að eiga þessa minningu um Eyjalistamanninn og einn af eftirlætissonum listgyðjunnar á 20. öld frá þeim tíma þar sem allt er óheft og aðeins hæfileikarnir skína í gegn.