Það er merkilegt að ungur maður með mikla hæfileika í vöggugjöf sem gefur sig listagyðjunni á vald og lærir málaralist skuli koma aftur heim til Vestmannaeyja og fara að vinna sem húsamálari hjá föður sínum án þess að efna til viðamikilla sýninga fyrr en mörgum áratugum síðar.
Ragnar nam fyrst við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík á árunum 1943-1945 og síðan við sjálfa Kunstakademíuna í Kaupmannahöfn 1948-1951. Hann sýndi verk sín á fáeinum samsýningum, t.d. Charlottenborg í Kaupmannahöfn og einnig í Reykjavík meðan á náminu stóð.
En í Vestmannaeyjum komu myndir hans ekki fyrir almenningssjónir fyrr en upp úr 1980. Samt átti Ragnar ekki langt að sækja hæfileikana og stuðninginn, en faðir hans, Engilbert Gíslason (1877-1971) var einn þekktasti listamaður Eyjanna á þeim tíma og síðar. Árið 2004 var Ragnar útnefndur sem fyrsti heiðurslistamaður Vestmannaeyja og þar sýndi heimabyggðin í verki hversu mikils metinn hann var.
Eitt höfuðeinkenni Ragnars sem listamanns og einstaklings var alla tíð vandvirkni, hógværð og lítillæti. Listamaður dagsins opnar glugga sinn fyrir eftirlætismyndefni sínu, Húsin og Heimaklettur er málað 1954.