23.10.2020
Meðalverð á norsk-íslenskri síld til vinnslu og bræðslu var að meðaltali 128% hærra í Noregi en á Íslandi á tímabilinu 2012 til 2019, að því er fram kemur í tölum sem birtar hafa verið á vef Verðlagsstofu skiptaverðs. Minnsta frávikið á tímabilinu var árið 2019 þegar meðalverð var 51% hærra í Noregi en á Íslandi, en mesti munurinn var árið 2015 þegar verð var 186% hærra í Noregi.
Er þetta í mikilli andstöðu við muninn á afurðaverði við útflutning, en þá er munurinn mun minni.
Verðlagsstofa kveðst hafa ákveðið að taka sérstaklega til skoðunar uppsjávarverð í Noregi „í ljósi umræðu í samfélaginu um verð á uppsjávarfiski, ásamt þeim umkvörtunum sem Verðlagsstofu hefur borist.“
Málið er samt ekki endilega alveg klippt og skorið og telur Verðlagsstofa þastæðu til að gera fyrirvara við tölurnar. „Athygli er vakin á því að afurðaflokkar fyrir Noreg eiga við um norsk-íslenska síld en fyrir síld almennt varðandi Ísland, þar sem gögn Hagstofu Íslands aðgreina ekki í sundur veiðistofna Íslenskrar síldar og norsk-íslenskrar síldar.“ Stofnunin telur auk þess ástæðu til þess að vekja „athygli á þeim ólíku þáttum sem kunna að leiða til mismunandi verðlagningar á milli landa.“
Mismikil frávik
Ef eingöngu er litið er til síldar til vinnslu var verð að meðaltali 125% hærra í Noregi árin 2012 til 2019. Mesti munurinn var 2015 en þá var verðið 180% hærra í Noregi, en minnsti munur var 2019 þegar verð var 50% hærra í Noregi en á Íslandi.
Frávikin eru minni þegar eru skoðuð verð síldar til bræðslu, en þá var meðalverð á tímabilinu 34% hærra í Noregi en á Íslandi. Árið 2012 var mesti munur eða 57% hærra í Noregi, en verð var 18% hærra á Íslandi árið 2016.
Hvað varðar afurðaverð kemur í ljós að meðalverð á heilfrystri síld flutt út frá Íslandi er um 8% hærra en meðalverð á sambærilegum afurðum útfluttum frá Noregi árin 2012 til 2019. Mesti munurinn var 2017 þegar meðalverð var 14% hærra á ÍSlandi en minnsti munurinn 2015 þegar verð var 1% hærra í Noregi.
Meðalútflutningsverð síldarflaka var á tímabilinu að meðaltali 6% hærra í Noregi en árið 2013 var mesti munur á verði þegar meðalverð var 24% hærra á norskum afurðum. Svipað verð var á tímabilinu hvað síldarsamflök varðar en þá var mesti munur árið 2012 þegar meðalverð var 18% hærra á norskum afurðum.