Á þriðja sunnudegi í aðventu flýgur til okkar um jólagluggann þjóðarfugl Vestmannaeyja kominn alskapaður úr hendi Alexöndru Kjuregej Argunovu.
Listamaðurinn lágvaxni frá jakútíu með stóru textílverk sín og fallegu mósaíkmyndirnar flutti til Íslands árið 1966 og hefur í 45 ár bætt og breytt listalífi landsmanna með litagleði sinni, fjölbreytileika í sköpun og óþrjótandi sköpunarkrafti. Kjuregej hefur á sínum langa ferli hlotið fjölda viðurkenninga, bæði sem málari og einnig sem tónlistarmaður.
Hingað kom hún 2015 með sýningu og var ekki hægt að sjá að þar færi kona komin fast að áttræðu. Það sem helst einkennir verk hennar er sú óbeislaða gleði sem ævinlega skín í gegnum alla hennar listsköpun í bland við djúpa og einlæga þrá eftir friði og sátt í tvístruðum mannheimi á svipaðan hátt og lundinn fallegi býr til einingu úr sínum fjölmörgu aðskiljanlegu brotum.