11 nemendur útskrifuðust í dag frá FÍV

Í dag laugardaginn 18. desember útskrifuðust 11 nemendur af fjórum mismunandi brautum frá Framhaldskóla Vestmannaeyja

Þau eru: 

Stúdentsbraut-félagsvísindalína

 • Anika Hera Hannesdóttir

Stúdentsbraut – Starfsnám (viðbótarnám)

 • Anna Guðný Laxdal Magnúsdóttir

Stúdentsbraut-náttúruvísindalína

 • Arnar Breki Gunnarsson
 • Arnór Viðarsson

Sjúkraliðabraut + Viðbótarnám til stúdentsprófs

 • Bjartey Ósk Stefánsdóttir

Húsasmiðabraut + Viðbótarnám til stúdentsprófs

 • Gauti Gunnarsson

Starfsnám (viðbótarnám)

 • Guðrún Olga Gústafsdóttir Stúdentsbraut
 • Katrín Rós Óðinsdóttir Stúdentsbraut

Stúdentsprófsbraut, opin lína

 • Kristín Inga Þorvaldsdóttir
 • Kristófer Heimisson
 • Melkorka Mary Bjarnadóttir

Viðurkenningar fyrir akademíu ÍBV og FÍV:

 • Anika Hera Hannesdóttir
 • Arnar Breki Gunnarsson
 • Arnór Viðarsson
 • Gauti Gunnarsson
 • Auk þessara eru einn nemandi sem stundaði nám við Akademíuna áður en hann flutti erlendis. Það er Kristófer Heimisson.

Danska sendiráðið veitti verðlaun fyrir góðan árangur í dönsku

 • Arnór Viðarsson

Hér er ræða Helgu Kristínar skólameistara: 

Kæru útskriftarnemar, ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn og þann árangur sem þið fagnið í dag. Þessi dagur er hátíðardagur, hátíðardagurinn ykkar, þið hafið lagt hart að ykkur í náminu og staðið ykkur vel.

Á þessum tímamótum er við hæfi að horfa til framtíðar og íhuga hvað það er sem við viljum skilja eftir en umfram allt hvað viljum taka með okkur og vinna áfram með.

Við trúum að hægt sé að gera góðan skóla að enn betri skóla og við sjáum að þekkingin og færnin til þess er til staðar. Margt hefur breyst á þessum rúmlega 40 árum sem skólinn hefur starfað og jafnframt verða samfélagsbreytingar sífellt hraðari. Við vitum að skóli framtíðarinnar rétt eins og atvinnulífið verður með öðru móti en við þekkjum í dag.

En meginmarkmið Framhaldsskólans munu ekki breytast, að veita nemendum menntun sem samtímis er sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðgar líf einstaklinganna, eflir samfélagið og að starfsemin og námið mótist af persónulegum tengslum ásamt virðingu fyrir samfélagi og umhverfi.

Við leggjum áherslu á umhverfismálin og höfum sett okkur stefnu sem tekur m.a. til umhverfisþátta sem hægt er að fylgjast með og mæla hverju sinni. Tölur um hvernig okkur gengur að draga úr kolefnisspori skólans af völdum þessara þátta má lesa úr Grænu bókahaldi skólans sem birt er opinberlega og hófst árið 2019.

Framhaldsskólinn er að fullu kolefnishlutlaus. Hann leggur áherslu á að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda í rekstri sínum en öll eftirstandandi losun er kolefnisjöfnuð með vottuðum kolefniseiningum frá árinu 2020. Skólinn tekur þátt í grænum skrefum í ríkisrekstri en þau snúast um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Þar eru tilgreindar aðgerðir sem snerta sex umhverfisþætti og eru þær innleiddar í fimm áföngum, Framhaldsskólinn hefur í dag innleitt alla fimm áfanganna.

Í dag þurfa einstaklingar að læra að afla sér víðtækrar þekkingar á mörgum sviðum, öðlast hæfni til að leysa flókin og skapandi verkefni og nauðsynlegt er að vera gagnrýnin í hugsun. Við gerum þær kröfur til náms, sem nemendur Framhaldsskólans leggja stund á, að það skili þeim færni, leikni og fagþekkingu.
Að námið endist lengi og það sé ætíð hægt að bæta við sig meira námi sama hvaða námsleið er valin í byrjun og þannig öðlist einstaklingurinn enn meiri færni.

Áhersla er á í skólanum að sú þekking sem nemandinn öðlast í námi yfirfærist á framtíðaraðstæður og sé hagnýt, þannig að einstaklingurinn hafi skilning á hvernig og við hvaða aðstæður hann geti nýtt sér þekkingu sína núna og til framtíðar.

Með markvissri kennslu, miklum en raunhæfum kröfum og öguðum vinnubrögðum leitast skólinn við að efla gagnrýna hugsun og frumkvæði ásamt ábyrgðarkennd, umburðarlyndi og víðsýni. Skólinn eflir sjálfstraust nemendanna með því að gera þeim ljóst sambandið milli árangurs og erfiðis.
Í náminu læra nemendur að bera ábyrgð á eigin námi, vinna sjálfstætt jafnt og í hópi með öðrum.

Með fræðslu, kröfum og leiðsögn vill skólinn efla þekkingarleit nemenda og gera þá virka og áhugasama um áframhaldandi menntun. Með þjálfun menningar- og upplýsingalæsis leggur skólinn grunn að öflugri sköpun innan margvíslegra fræðigreina, um leið og heilbrigð dómgreind, víðsýni og verðmætamat nemenda er efld.

Ágætu áheyrendur
Í dag útskrifuðum við 11 nemendur sem luku námi af sex námsbrautum.
Við vitum að Framhaldskólinn í Vestmannaeyjum er góður skóli og við erum stolt af skólanum okkar. Skólinn okkar býður fjölbreytt og gott nám, sem mætir kröfum nemenda og samfélagsins á hverjum tíma.
Við erum með ánægða og duglega nemendur sem stundar fjölbreytt nám, rekstur skólans er í jafnvægi og í skólanum starfa mjög hæfir starfsmenn.
Við horfum stolt og full tilhlökkunar til framtíðar og látum róður skólans berast sem víðast.

Brautskráning markar ævinlega tímamót, þar sem tvennir tímar mætast.
Þannig er athöfnin hér í dag í senn lokaskref í átt að markmiði sem nemendur hafa sett sér – um leið og hún er fyrsta skrefið á vegferð sem mun leiða þá á vit nýrra tækifæra. Með nýja þekkingu og færni í farteskinu sem nýtist samfélaginu og atvinnulífinu og auðgar um leið líf þeirra.

Kæru útskriftarnemar
Fyrir hönd alls starfsfólks Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, sem hefði svo sannarlega viljað vera með ykkur hérna í dag en sökum samkomutakmarkanna þá var það ekki í boði, þakka ég ykkur samfylgdina og óska ykkur alls góðs, hvert sem leiðir liggja.

Þið hafið staðið ykkur vel og verið sjálfum ykkur til sóma.
Við þessa útskrift er okkur efst í huga hamingjuóskir til ykkar sem voruð útskrifast.
Það eru svo mikil verðmæti í ykkur fólgin. Ykkar munu bíða krefjandi verkefni, framtíð samfélagsins liggur í höndum ykkar. Megi gæfan ávallt brosa við ykkur. Ég vil brýna ykkur til að vera heil og sönn í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur, sérstaklega í samskiptum við annað fólk, það skiptir mestu máli. Haldið áfram á ykkar leið og verið jákvæð og hjálpsöm.

Takið þátt í lífinu með þau siðferðisgildi sem mestu skipta, heiðarleika, virðingu og ábyrgð að leiðarljósi. Það eru þessi gildi sem hafa verið kjölfesta í lífi íslensku þjóðarinnar og þau má öll finna í Hávamálum og öðrum fornum ritum, Þar stendur meðal annar:

Deyr fé, deyja frændur,
Deyr sjálfur ið sama.
En orðstýr-, deyr aldrei
hveim er sér góðan getur.

Það veit enginn hvað býr framtíðinni, en góð menntun, góð áform og jákvætt viðhorf er kjörið nesti í þá ferð sem er lífið framundan.

Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á okkur öll og við höfum ekki val um annað en að takast á við áskoranir. Ein þekktasta húsmóðir úr Vestmannaeyjum, dó á þessum degi, 18. desember fyrir 339 árum. Hún lenti í miklum hremmingum, sem hún komst þó úr og hefur bæði verið lofuð og löstuð, en lifir í huga okkar sem tákn um þrautseigju og bjartsýni.

Hennar líf minnir á að erfiðleikar eru yfirleitt tímabundnir og eru yfirstíganlegir. Þessi ágæta kona hér Guðríður Símonardóttir, stundum nefnd Tyrkja Gudda, því hún var brottnumin í tyrkjaráninu svonefnda og hneppt í þrældóm. Hún varð síðar kona eins af þekktustu skáldum landsins Hallgríms Péturssonar. Hann orti þekkta sálma og alkunnar heilræðavísur. Ein þeirra heitir „varhygð“ og færir okkur boðskap sem gott er að tileinka sér.

Auðtrúa þú aldrei sért.
ekki tala um hug þinn þvert;
það má kalla hyggins hátt,
að heyra margt en skrafa fátt.

Tak þitt æ í tíma ráð,
tókst þó ei sé lundin bráð;
vin þinn skalt velja þér,
sem vitur og með tryggur er.

Það er von mín, að sem mest af því sem þið hafið lært og tileinkað ykkur í skólanum megi vera ykkur til gagns þegar þið stígið skrefið út úr skólanum í framtíðina.

Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Það er ykkar að byggja upp samfélag framtíðarinnar. Til að sigra erfiða tíma, til að skapa heim þar sem allir hafa tækifæri til að finna vinnu, fara í skóla, ef við ætlum að bjarga umhverfinu og vinna bug á faröldrum framtíðarinnar, þá verðum við að gera það saman.

Ég minni ykkur á þið eruð alla ævi nemendur skólans og skólinn er stoltur af ykkur eins og þið eruð stolt af ykkar skóla.

Ágætu aðstandendur, velunnarar og gestir til hamingju með daginn

Kennurum og starfsfólki Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum þakka ég samstarfið óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Helga Kristín Kolbeins skólameistari

 

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

 • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
 • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
 • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
 • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
 • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
 • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search